Lífið

"To do“-listinn er galdurinn

Guðný Hrönn skrifar
Unnur er eigandi Dale Carnegie á Íslandi og hefur verið þjálfari í 15 ár.
Unnur er eigandi Dale Carnegie á Íslandi og hefur verið þjálfari í 15 ár. Vísir/Anton Brink
Margt fólk finnur svo sannarlega fyrir jólastressi þegar líða fer á desember. Unnur Magnúsdóttir, þjálfari hjá Carnegie, er ein þeirra en hún hefur tileinkað sér hugsunarhátt sem hjálpar henni við að ná tökum á stressinu.

Þó að Unnur sé sérfræðingur í tímastjórnun þá finnur hún sjálf stundum fyrir stressi þegar jólin nálgast, verkefnin hlaðast upp og dagskráinverður þétt. „Stressið tengist þá helst því að mig langar að gera svo margt og kem því ekki fyrir í dagskránni. Þá er ég ekki að meina að mig langi að þvo alla glugga og taka skápana í gegn, alls ekki. Ég er löngu hætt að fara í stórhreingerningar þegar það er hvort sem er alltaf myrkur. Þetta er frekar tengt því að föndra og gera eitthvað fallegt og þá helst matartengt. En svo koma jólin og þá er maður búin að gera sumt og annað ekki, og það er bara allt í lagi. 

Við höfum eflaust mörg upplifað að fara í gegnum daga sem einkennast af orkuleysi og sleni án þess þó að vera lasin. Á slíkum dögum komum við ekki miklu í verk og getum verið óánægð með okkur sjálf og förum að stressa okkur á hlutunum. Á hinn bóginn eru sumir dagar fullir af orku og verkefnin hreinlega renna undan okkur. Munurinn á þessu tvennu er oftar en ekki tengdur hugarfarinu. Þetta er í raun bara spurningin um að tala í sig kraftinn frekar en að rífa sig niður fyrir að koma engu í verk.“

Unnur segir „to do“-lista vera galdurinn á bak við að ná að klára öll jólaverkin án þess að lenda í tímaþröng og stressi. „Ég er fullkomlega háð því að gera lista yfir það sem þarf að gera. Listinn minn á sér meira að segja nafn og kallast „Geri-listinn“. Yfirleitt verður fyrsti listinn til í byrjun desember þegar ég fer að velta því fyrir mér hvað ég ætla að gefa í jólagjöf. Svo vasast ég með þennan lista til og frá, bæti á hann og stroka út þar til viku fyrir jól. Þá verður til rosalegt skipulagsblað sem ég skipti niður á vikudagana og skrifa inn á hvern dag hvað ég ætla að gera hvern dag. Auðvitað lendi ég stundum í því að færa verkefni á milli daga en þá þarf bara að endurskipuleggja samkvæmt því. Þegar ég kenni stjórnendum tímastjórnun þá bið ég fólk oft að gera lista yfir það sem það á EKKI að gera. Ég held að það eigi vel við í jólaundirbúningnum líka,“ útskýrir Unnur.

„Hvað er það versta sem getur gerst?“

Þegar jólastressið víðfræga tekur yfir mælir Unnur með að fólk staldri við og hugleiði. „Ég hef tileinkað mér hugsunina um að ég sé að gera mitt besta og svo spyr ég mig hvað sé það versta sem getur gerst. Ef maður virkilega spyr sig: „Hvað er það versta sem getur gerst?“ þá kemst maður oftast að þeirri niðurstöðu að það er ekkert svo slæmt og það hefur róandi áhrif.“

Að lokum vill Unnur minna fólk á að jólin eiga að snúast um gleði og ánægju. „Jólin snúast mikið um hefðir og fólk er gjarnan upptekið af því að gera hitt og þetta, af því að það tengist jólunum. Jólahreingerning, smákökubakstur og jólakort eru dæmi um þetta. Vinur minn sagði mér að þau hjónin hefðu sest niður og velt fyrir sér hvernig jól þau vildu eiga. Þau komust meðal annars að þeirri niðurstöðu að þau höfðu enga ánægju af því að skrifa jólakort og að það var í raun streituvaldur. Auðvitað á maður þá að sleppa því. Jólin eiga að snúast um gleði, huggulegheit og vellíðan en ekki stress og leiðindi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×