Lífið

Stafakarlarnir hafa ekkert elst síðustu 20 árin

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Bergljót tók nýlega við gullplötu fyrir Stafakarlaplötuna en hún fylgir með afmælisútgáfunni ásamt textum.
Bergljót tók nýlega við gullplötu fyrir Stafakarlaplötuna en hún fylgir með afmælisútgáfunni ásamt textum. Mynd/Jón Önfjörð
Bókin Stafakarlarnir eftir Bergljótu Arnalds er orðin 20 ára og kemur af því tilefni út í afmælisútgáfu nú fyrir jól. Bergljótu datt ekki einu sinni í hug að úr yrði metsölubók þegar hún skrifaði hana á leikvelli í Vesturbænum. Bókin hefur selst upp margoft síðan þá.

„Það er náttúrulega draumur hvers höfundar að bækurnar þeirra verði klassískar og það er mjög gaman að þetta efni lifir áfram í menningarflórunni. Þeir greinilega eldast ekkert þessir karlar og ég vil meina að ég geri það ekki heldur,“ segir Bergljót Arnalds hlæjandi aðspurð hvernig það sé að karlarnir hennar séu orðnir 20 ára.

Datt þér einhvern tímann í hug að þetta yrði svona langlíf saga?

„Mér datt ekki einu sinni í hug að þetta yrði metsölubók. Það var frænka mín sem sagði mér frá því fyrst að bókin væri á metsölulistum. Ég hélt að metsölulistar væru bara fyrir skáldsögur en að myndskreytt barnabók kæmist þangað inn var eitthvað sem ég hafði ekki einu sinni hugsað út í. Eina takmarkið mitt var að skrifa söguna og gera hana skemmtilega. Ég skrifaði hana fyrir strákinn minn – ætli ég hafi ekki verið tvítug þegar ég gerði það. Hún varð til á leikvelli í Vesturbænum þar sem ég var með stráknum mínum að leik.

Ég hugsaði að það yrði gaman að skrifa stafabók þar sem allt myndi bara renna saman í eina heild en ekki þannig að hver stafur væri stakur fyrir sig. Þá fór ég að pæla í hverjar væru mínar uppáhaldsbarnabækur og þar á meðal var bókin Hljómsveitin fljúgandi. Þar kom fljúgandi hljómsveit og það átti að geta upp á hljóðfærunum. Ég hugsaði að það væri gaman að stafirnir kæmu kannski fljúgandi og þá datt mér í hug að stafirnir gætu talað og væru svolítið fyndnir.“

Hefurðu ekki verið að endurútgefa Stafakarlana villt og galið öll þessi tuttugu ár?

„Hún hefur verið endurútgefin nánast sleitulaust síðan hún kom fyrst út. Hún seldist strax svo hratt að ég náði ekki einu sinni að fá höfundareintökin mín. Ég fékk einhver tvö, þrjú eintök sem ég gaf mömmu og pabba en þegar ég ætlaði að ná í mín eintök var búið að selja þau öll af lagernum, þannig að ég á ekki fyrstu útgáfuna, en hún er örugglega orðin mjög verðmæt í dag. Síðan kom hún aftur út árið eftir og seldist þá upp fyrir jól. Síðan þá hefur hún komið út mjög reglulega. Hún var búin að vera uppseld núna og mikið verið suðað í mér að gefa hana aftur út.“

Og núna er hún komin út í veglegri afmælisútgáfu.

„Hún hefur aldrei verið svona stór. Þetta er bæði bók og diskur – ég samdi á sínum tíma tónlist, sem er eini barnadiskurinn sem ég hef gert. Það var rosa fjör, hver stafakarl fékk sitt lag. Ég var treg í taumi fyrst og ætlaði að gera eitthvað annað en síðan varð það alveg þvílíkt ball að láta þá fara að syngja og tjá sig líka á þann máta,“ segir Bergljót hlæjandi.

„Það eru 35 lög á disknum, sem er meira en tvöfalt albúm, og það er farið frá óperuaríu yfir í salsa og allt þar á milli. Þetta var einu sinni gefið út svona saman, diskurinn og bókin, en núna eru allir söngtextarnir gefnir út með, prentaðir inn í bókina. Þannig að það er alveg gífurlegt magn orða fyrir hvern staf. Þegar lögin bætast við þá koma inn fleiri orð en það er auðvitað mismikið fyrir hvern staf – Ð-ið er ekki með neitt enn þá, við þurfum að fara að bæta úr því og búa til íslenskt orð sem hefst á Ð. Hans lag er svona Sigurrósarlag því að hann er dálítið leiður og þessi útsetning passaði eitthvað svo vel við tilfinningar hans.

Hver stafur er með mikla þráhyggju fyrir sjálfum sér, svona eins og við erum öll á einhvern hátt. Allir í sínum heimi með hugann við eitthvað, líkt og jörðin snýst um sólina og tunglið um okkur. Ætli það sé ekki þess vegna líka sem okkur finnst þeir svo fyndnir,“ segir Bergljót að lokum. Afmælisútgáfa Stafakarlanna er komin í verslanir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×