Skoðun

Verðlækkun ógnar strandveiðum

Vigfús Ásbjörnsson skrifar
Strandveiðar hafa fest sig í sessi sem útgerðarmynstur innan laga um stjórn fiskveiða. Þær hófust í júní 2009 og voru lögfestar í maí 2010. Alls eru strandveiðitímabilin því orðin átta talsins – veiðarnar stundaðar mánuðina maí, júní, júlí og ágúst. 664 bátar stunduðu strandveiðar á sl. sumri.

Landssamband smábátaeigenda (LS) hefur barist fyrir auknu frelsi til strandveiða. Reglur um veiðarnar verði óbreyttar að því undanskildu að ekki komi til stöðvunar í byrjun eða um miðjan mánuð eins og kerfið er nú uppbyggt. Viðmiðun mánaðarins leyfir aðeins að róið sé í örfáa daga. Breytt strandveiðileyfi eins og LS gerir kröfu um mundi gefa viðkomandi heimild til að róa 4 daga í viku alla fjóra mánuðina.

Tillögur LS fengu góðan hljómgrunn í aðdraganda alþingiskosninganna þann 29. október sl. Margvíslegum þáttum þeim til rökstuðnings var velt upp, eins og:

strandveiðar skapa meiri sátt um stjórn fiskveiða,

strandveiðar brúa minnkandi framboð sem gjarnan verður yfir sumarið á ferskum fiski,

strandveiðar gefa ungum aðilum tækifæri á að spreyta sig sem sjómenn og skipstjórar,

strandveiðar efla mannlíf hinna dreifðu byggða,

strandveiðar gefa jákvæða sýn á sjávarútveginn þegar þær gæða hafnir landsins lífi.

Óveðursský hafa hrannast upp að undanförnu varðandi verðmæti sjávar­afurða. Einkum er það sterk króna sem veldur mönnum áhyggjum, en ekki hefur tekist að hækka fiskverð í takt við fall á gjaldmiðlum þeirra þjóða sem selt er til gagnvart krónu. Samhliða þessum þætti hefur kostnaður aukist og því fyrirsjáanlegt að tekjur strandveiðimanna dragast saman ef ekkert verður að gert. Ef svo ólíklega vill til að strandveiðikerfið verði óbreytt er hægt að reikna með að aflaverðmæti lækki um 30% milli ára. Það þýðir í raun að útgerð, miðað við óbreytt strandveiðikerfi, getur engan veginn staðið undir sér þó miðað sé við aflahæstu báta á hverju svæði, sem er þó aðeins brot af heildinni. Áhyggjur strandveiðimanna eru því skiljanlegar og því brýnt að ný ríkisstjórn láti málið til sín taka og verði við kröfum LS.

Smábátaeigendur þurfa nú sem aldrei fyrr að herða róðurinn fyrir bættum rekstrarskilyrðum. Þar eru ekki aðeins strandveiðarnar undir, útgerð allra smábáta glímir við aðsteðjandi vanda sem stjórnvöld verða að koma að.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×