Skoðun

Ábyrga ferðaþjónustu

Sævar Skaptason skrifar
Ferðaþjónusta á Íslandi er mikilvæg atvinnugrein sem getur stuðlað að langtíma velferð og góðum orðstír þjóðarinnar. Þverfaglegt samstarf margra ólíkra aðila er best til þess fallið að slíkt geti átt sér stað og var það m.a. einn af hornsteinum í stofnun Íslenska ferðaklasans á sínum tíma. Að hafa hugann stöðugt við leiðir til að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækja, auka verðmætasköpun og byggja upp atvinnugrein í sátt við samfélag og íbúa eru lykilatriði að langtíma uppbyggingu.

Ör vöxtur í ferðaþjónustu kallar á að við styrkjum það góða orðspor sem upphaflega kom okkur á kortið hjá gestum okkar um allan heim.

Ísland er best þekkt fyrir stórfenglega náttúru, menningu og sögu, gestrisni og fjölbreytileika, hvort sem það er í veðurfari eða sköpunargleði gestgjafanna. Allt eru þetta þættir sem gætu á einn eða annan hátt skaðast ef ekki er rétt með farið. Það er því mikil ábyrgð sem felst í því að taka á móti gestum, sýna þeim landið og verða hluti af upplifun þess og ferðalagi.

Til þess að við getum sem best orðið góðir gestgjafar til lengri tíma í alþjóðlegri samkeppni þurfum við að koma okkur saman um hvernig gestgjafar við viljum vera. Til þess að auka samstöðu allra fyrirtækja sem starfa beint eða óbeint við ferðaþjónustu hafa Íslenski ferðaklasinn og Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð, hrint af stað hvatningarverkefni um ábyrga ferðaþjónustu á Íslandi. Með sameiginlegri yfirlýsingu munu fyrirtækin verða í fararbroddi fyrir sjálfbærni og samfélagsábyrgð í ferðaþjónustu. Þannig munu bæði fyrirtæki sem eru að taka sín fyrstu skref sem og önnur sem eru lengra komin vinna markvisst með þau gildi sem verkefnið stendur fyrir, þ.e. sýna það bæði í orði og verki að þau sýni ábyrgð í því samfélagi og nærumhverfi sem fyrirtækin starfa í.

Hvatningarverkefni Festu og Íslenska ferðaklasans er unnið í samstarfi aðila ferðaþjónustunnar s.s. SAF, Ferðamálastofu, Íslandsstofu, markaðsstofa landshlutanna, Höfuðborgarstofu og Safetravel. Yfirlýsingin um ábyrga ferðaþjónustu verður undirrituð strax á nýju ári og er forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, verndari verkefnisins.

Ég hvet alla ferðaþjónustuaðila sem og aðra aðila sem með einhverjum hætti tengjast ferðaþjónustu til þess að kynna sér málið og skrá sig til leiks. Allar upplýsingar er að finna á heimasíðum framkvæmdaaðilanna, Festu og Íslenska ferðaklasans.




Skoðun

Sjá meira


×