Skoðun

Af hverju eru svona fáar konur sjálfskapaðir milljarðamæringar?

Margrét Gústavsdóttir skrifar
Í bókinni The Rich – From slaves­ to Super Yacts, a 2000 year history eftir J. Kampfner er engin kona nefnd á nafn sem sjálfskapaður milljarðamæringur.

Höfundurinn tekur það sérstaklega fram, að allar konur sem eru nefndar í bókinni hafi fengið auð sinn í gegnum hjónaband eða arf. Hann reynir þó ekkert að útskýra af hverju þetta stafar. Ég get hins vegar hjálpað til með það. Tamm­taramm?…

Einfaldasta skýringin er sú að konur fara mánaðarlega á blæðingar (sem standa í sirka viku, ár eftir ár í um 35 ár), ganga svo með og ala börn. Áður en íbúfen, dömubindi og tappar komu til sögunnar var sannarlega ekkert grín að fara á túr. Þetta var fullt starf. Og svo endalausar meðgöngur. Hvernig áttu klárar konur að verða ríkar á eigin forsendum? Halló?

23. júní árið 1960 tóku þessi líffræðilegu örlög konunnar viðsnúning. Pillan kom til sögunnar. Nú áttu konur sig sjálfar. Að vera á pillunni þótti samt mikil jaðarhegðun til að byrja með og voru einhleypar konur á pillunni grunaðar um lauslæti. Það þykir ekki alls staðar vel séð að konur eigi sig sjálfar.

Hin moldríka Melinda Gates setti sér göfugt markmið um að útvega 120 milljón fátækum konum getnaðarvarnir fyrir árið 2020. Barnungar mæður komast jú ekki mikið lengra í lífinu með einn eða fleiri krakka til að sjá fyrir.

Með þessu fá sumar þeirra tækifæri til að mennta sig. Láta aðra drauma rætast. Og ekki bara ungar konur – allar konur sem geta notað getnaðarvarnir fá önnur tækifæri með líf sitt.

Getnaðarvarnir hafa á rúmum 50 árum gefið konum frelsið til að láta aðra hæfileika en uppeldisfærni og umönnun njóta sín. Með fullri virðingu fyrir þeim hæfileikum, en þeir eru best nýttir ef þeir fá að vera valkostur.

Á nýjum lista Forbes yfir ríkasta fólk heims eru 1.810 nöfn. Þar af eru 190 konur. 33 sem sköpuðu eigin auð frá alveg grunni.

Það komu 27 nýjar konur á Forbes-­listann 2016 og við megum búast við að þeim fjölgi jafnt og þétt með árunum, svo framarlega sem við stöndum áfram stífan vörð um frelsi kvenna.




Skoðun

Sjá meira


×