Skoðun

Nýsköpun í öldrunarþjónustu

Halldór S.Guðmundsson og Berglind Hallgrímsdóttir skrifar
Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Öldrunarheimili Akureyrar (ÖA) hafa frá því í vor unnið að verkefni á sviði nýsköpunar í opinberum rekstri. Verkefnið er hluti af samstarfsverkefni ÖA, velferðarráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um nýsköpun og velferðartækni í félagslegri þjónustu. Niðurstaða greiningar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er nokkuð skýr. Hjá ÖA er öflugt og uppbyggilegt þróunarstarf í gangi og gróskumikil og hvetjandi starfsemi sem einkennist af nýsköpun og þróun. Mótun og innleiðing nýsköpunar mælist jafnvel öflugri á mörgum sviðum hjá ÖA en meðal íslenskra og evrópskra samanburðarfyrirtækja, bæði opinberra og einkafyrirtækja.

Niðurstaða greiningar Nýsköpunarmiðstöðvar á virkni og hæfni starfsfólks ÖA við að efna til og innleiða nýsköpun í starfi var skýrandi, jákvæð og hvetjandi. Niðurstöðunum fylgja skýrar ábendingar um hvað þurfi að gera betur. Meðal þess sem stjórnendur ÖA mættu vera betur meðvitaðir um er að miðla upplýsingum um úrbótaverkefni og nýsköpun í rekstri og þjónustu; til starfsmanna, aðstandenda, sveitarstjórnarfólks og almennings.

Hver eru svo þessi nýsköpunarverkefni? Nýsköpun er meira en ný hugmynd eða ný vara. Nýsköpun er það ferli að endurbæta það sem fyrir er og koma hugmyndinni eða endurbótinni í framkvæmd, jafnvel sem þróunarverkefni.

Á síðustu árum hafa Öldrunarheimili Akureyrar unnið að og innleitt um 30 nýsköpunar- og þróunarverkefni. Má þar nefna dæmi eins og að fá alþjóðlega viðurkenningu sem Eden heimili, rafræna gæðahandbók og rannsóknir, þráðlaust net og spjaldtölvuvæðingu í þágu íbúa og fjölskyldna og Timian innkaupa- og matarvef. Einnig verkefni eins og „Afla” – rafræna lyfjaumsýslu, skjáupplýsingakerfi, sameiningu starfseininga, þróunarstarf í félags- og klúbbastarfi, meðferð fyrir einstaklinga með Alzheimer og stefnumótun, skipulag og innleiðing á aðferðum þjónandi leiðsagnar.

Niðurstaða greiningar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands ögrar fyrirfram mótuðum hugmyndum og fordómum um að hjúkrunarheimili eigi ekki augljósa samleið með því sem kallast nýsköpun og þróun. Niðurstaðan staðfestir hins vegar hugmyndir starfsmanna og stjórnenda um að á ÖA fari fram mikilvægt starf í þágu hjúkrunar og aðstoðar við eldra fólk, en líka að þar eigi sér stað athyglisvert þróunar- og nýsköpunarstarf í samfélagslegri þjónustu.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×