Skoðun

Oní þá skal það!

Þröstur Ólafsson skrifar
Átti erindi inn í matvöruverslun til að kaupa í kvöldmatinn. Afgreiðslumaður í matborði vildi vita hvers ég óskaði. Spurði á móti hvort hann ætti folaldakjöt. Hann kvað nei við: sagði það núorðið vera sjaldan á boðstólum. Ég hváði við og spurði hvers vegna; enn köstuðu merar þó folöldum sem ekki væru öll sett á. Rétt er það, var svarið, þeir hafa hins vegar sett kvóta á framboð folaldakjöts. Nú hvernig má það, spurði ég. Hann sagði: Þeir sögðu mér það fyrir vestan, þegar ég vann þar, að folaldakjötið tæki sölu af lambakjötinu, það þætti mjúkt og gott og væri þar að auki ódýrt. Já, það var lóðið, sagði ég og þagnaði, hætti við að kaupa kjötmeti og ákvað að fá mér fisk.

Þegar út var komið staldraði ég við og tautaði í barm mér. Ekki var ég að gera sjálfum mér hvað þá sjómönnum neinn greiða með þessu. Nú ákveður bændaforystan að setja innanlandskvóta á fiskinn, svo hann verði dýrari og keppi síður við lambakjötið. Það verði að hafa forgang á diskum landsmanna, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Oní þá skal það.

Raunstjórnun á matvælaneyslu landsmanna

Þetta er ekki eina dæmið um forræðishyggju og raunstjórnun bændaforystu og afurðastöðva á matvælaneyslu landsmanna. Þekkt er hetjuleg barátta þeirra gegn ónáttúrulegu undanrennuþambi landans. Þessi næringarlitla afgangsafurð fékk stöðu nýmjólkur og verðlögð eftir því. Einu sinni var smjörlíki, sem fellur undir flokkun iðnaðarvara, gert að landbúnaðarafurð og látið lúta lögum um verðlagningu búvara. Þannig tókst að hækka verð á smjörlíki, þótt enginn framleiðandi bæði um það. Smjör átti að kaupa, ekki margarín.

Nú er annar áratugur 21. aldar meir en hálfnaður. Hve lengi á að viðhalda þeirri forneskju að bændaforystan fái að ráða því, hvað við setjum oní okkur? Eða erum við svona miklir fávitar að okkur sé ekki treystandi til þess? Nú skil ég betur af hverju bændaforystan berst svona heiftarlega gegn ESB. Þar eru neytendur í hávegum hafðir. Hér er það lambakjötið.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×