Skoðun

VIÐ GETUM – ÉG GET Lífið og líknarmeðferð

Lóa Björk Ólafsdóttir skrifar
Alþjóðasamtökin gegn krabbameini (UICC) skora nú á þjóðir heims að taka þátt í að vekja athygli á baráttunni gegn krabbameini undir slagorðunum We Can – I Can eða VIÐ GETUM –ÉG GET. Mikilvægt er að samfélög og einstaklingar leggi sitt af mörkum til að draga úr tíðni krabbameina og áhrifum sjúkdómsins. Fagdeild krabbameinshjúkrunarfræðinga á Íslandi fagnar í ár 20 ára starfs­afmæli sínu og stendur fyrir greinaskrifum, í samvinnu við Krabbameinsfélag Íslands, undir heitinu VIÐ GETUM – ÉG GET. Fyrsta greinin birtist í Fréttablaðinu 4. febrúar sem er alþjóðlegi krabbameinsdagurinn. Í þessari síðustu grein af átta, sem hafa birst á árinu, er fjallað um lífið og líknarmeðferð.

Hvenær erum við best í stakk búin til að takast á við hið daglega líf með öllum sínum áskorunum? Sennilega eru flestir sammála um að það er auðveldara þegar okkur líður almennt nokkuð vel. Það er eðlilegt að í mannlegri tilveru komi dagar eða tímabil þar sem okkur líður ekki sem best. Aðferðir okkar til að takast á við slæma líðan eru sennilega mismunandi. Stundum getur samtal við góðan vin til að mynda gert gæfumuninn. Gott samtal getur veitt ákveðna líkn. Orðið „líkn“ er gamalt og rótgróið í íslenskri tungu og þýðir samkvæmt skilgreiningunni að hjálpa eða lina þjáningu. Sem sagt, að bæta líðan sem er slæm.

Líknarmeðferð er orð sem margir hræðast og setja í samhengi við það að lífinu fari senn að ljúka. Staðreyndin er þó sú að líknarmeðferð er gjarnan beitt samhliða annarri læknisfræðilegri meðferð. Nýlegar rannsóknir sýna fram á bætt lífsgæði og lengri lífshorfur hjá þeim einstaklingum sem fá líknarmeðferð samhliða krabbameinslyfjameðferð sem beinist að því að halda sjúkdómnum í skefjum.

Nokkrar staðreyndir um líknarmeðferð

Líknarmeðferð byggir á hugmyndafræði og aðferðum sem miðast við að fyrirbyggja eða draga úr líkamlegum, sálrænum eða sálfélagslegum einkennum sem sjúkdómur leiðir af sér eða meðferð vegna hans.

Í líknarmeðferð er horft á einstaklinginn sem hluta af stærri heild og því er stuðningur og fræðsla mikilvægur þáttur hennar, bæði fyrir þann einstakling sem veikist og þá sem eru honum nákomnir.

Líknarmeðferð miðast við að hjálpa fólki að lifa eins eðlilegu og innihaldsríku lífi og hægt er miðað við aðstæður á hverjum tíma, óháð því hver staða sjúkdómsins er.

Líknarmeðferð á ekki eingöngu við í lokastigum veikinda, heldur er mikilvægt að veita hana snemma í veikindaferlinu, samhliða annarri meðferð.

Líknarmeðferð á ekki bara við þegar um krabbameinssjúkdóm ræðir, heldur alla alvarlega og ólæknandi sjúkdóma.

Líknarmeðferð kemur inn á mörg svið mannlegrar tilveru og krefst aðkomu og samvinnu margra fagstétta.

Af hverju líknarmeðferð?

Mörgum reynist erfitt að taka það skref að þiggja aðkomu heilbrigðisstarfsfólks sem sérhæfir sig í líknarmeðferð. Ef til vill vegna þeirrar merkingar sem orðið líknarmeðferð hefur fyrir marga. Þetta gæti valdið því að oft þiggi sjúklingar meðferðina seint og nái ekki að nýta alla þá kosti sem hún býður upp á. Í kjölfar framfara á sviði læknavísinda tekst oft að halda sjúkdómum mun lengur í skefjum en áður þekktist, jafnvel þótt sjúkdómurinn teljist ólæknandi. Það er því viðbúið að margir standi frammi fyrir því að lifa til lengri tíma með einkennum sem sjúkdómur eða meðferð vegna hans leiðir af sér. Rétt og markviss meðhöndlun einkenna, í samvinnu við þann einstakling sem við þau glímir, skiptir gríðarlegu máli. Það skiptir máli af þeirri ástæðu að það er erfitt að eiga sér lífsgæði og von þegar slæm líðan litar tilveruna.

VIÐ GETUM sem samfélag uppfrætt hvert annað um þá breidd sem felst í líknarmeðferð og þannig upprætt lífseigan misskilning um að hún eigi einungis við þegar lífslokin nálgast.

ÉG GET tekið skrefið og leitað upplýsinga um þau úrræði sem gætu hjálpað mér og fjölskyldu minni að lifa við sem besta líðan þrátt fyrir erfiðan sjúkdóm. Ég get leitað eftir upplýsingum um þá aðila sem veita líknarmeðferð innan Landspítala og í heimahúsum.

Kynntu þér vefsíðu Lífsins – samtaka um líknarmeðferð á vefsíðunni www. lsl.is

Heimildir:

https://www.landspitali.is/library/Sameiginlegar-skrar/Gagnasafn/BRUNNURINN/Kliniskar-leidbeiningar/Liknarmedferd/klin_leid_liknarmedferd_1109.pdf



Early Palliative Care for Patients with Metastatic Non Small Cell Lung Cancer. https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/20818875



Höfundur starfar sem hjúkrunarfræðingur hjá Heimahlynningu Landspítala og Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins.








Skoðun

Sjá meira


×