Skoðun

Hinn dularfulli sjúkdómur

Jón Kalman Stefánsson skrifar
Er ekki lýjandi að vera stjórnmálamaður? Hvernig ætli þeim gangi almennt í hversdeginum, ég á við: tekur einhver mark á þeim þar? Er óhætt að lána þeim bók, treystir Visa þeim fyrir kortinu? Er kannski best, ef við skyldum óvart lenda við hlið einhvers þeirra í veislu, að hunsa hann alveg, eða umgangast mjög varlega, eins og um væri að ræða einstakling með dularfullan sjúkdóm?

Stjórnmálamenn eru auðvitað mismunandi, þó það nú væri, en næstu daga fáum við að njóta þeirra forréttinda að fylgjast með, gott ef ekki í beinni útsendingu, hvar í flokk má setja þá 63 einstaklinga sem nú sitja á þingi. Hvort það sé vinnandi vegur að taka mark á þeim, treysta þeim fyrir visakorti, lána þeim bók, penna – hvort hægt sé að ræða við þá eins og venjulega manneskju.

Um mikilvægi þess að hafa sjúklinga á göngum spítalans

Hér er naglföst staðreynd: í nýafstaðinni kosningabaráttu lofuðu langflestir þingmenn bót og betrun í málefnum Landspítalans og heilbrigðiskerfisins. Þeir beygðu sig, misviljugir kannski, undir kröfu rúmlega 86 þúsund Íslendinga um að fjárlög til heilbrigðismála skyldu nema 11 prósentum af landsframleiðslu. Báðir flokkar sitjandi starfsstjórnar, sem nú leggja fram fjárlagafrumvarpið, tóku undir þessa kröfu. „Á þessu kjörtímabili“, segir í einni yfirlýsingu Sjálfstæðisflokksins, „komum við ríkisfjármálunum í það lag að innistæðan væri til frekari uppbygginga á hinu næsta. Það tókst og þess vegna er uppbygging heilbrigðiskerfisins höfuðatriði í kosningabaráttu okkar nú.“ Og formaður flokksins, og fjármálaráðherra, sagði í DV undir lok október að flokkurinn ætli að „…?hlúa vel að heilbrigðiskerfinu og styrkja innviðina“.

Samt leggur Bjarni nú fram fjárlagafrumvarp þar sem hann, án nokkurra skýringa, gengur augljóslega á bak orða sinna. Allir flokkar, skrifar Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans, „sóru og sárt við lögðu að nú væri upp runninn tími endurreisnar heilbrigðiskerfisins … Í þessu ljósi er óhætt að segja, þegar horft er til fjárlagafrumvarpsins, að fjallið tók joðsótt og fæddist lítil mús.“

Var Bjarni þá, flokkssystkini hans, og þingmenn Framsóknar, einfaldlega að ljúga að okkur? Finnst þeim þá alls ekki tími til kominn að leggja allt í að endurreisa laskað heilbrigðiskerfið? Einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, Ásmundur Friðriksson, heldur því raunar fram að það sé ekki hægt að treysta starfsfólki Landspítalans – það ljúgi. Hann fullyrðir að starfsfólki þyki mikilvægara að hafa sjúklingana „á göngunum svo sjónvarpsvélarnar og fréttamennirnir geti flutt ljótar sögur úr heilbrigðiskerfinu“.

Ásmundur er næstefstur á lista Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, og hlýtur því að teljast hafa vigt innan flokksins. Búum við í þannig samfélagi að það þykir í fínu lagi að þingmaður ásaki starfsfólk Landspítalans um fals og lygar? Lýgur þá einnig, að hans mati, Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, þegar hann fullyrðir að verði fjárlagafrumvarpið „samþykkt óbreytt verða afleiðingarnar mjög alvarlegar fyrir stóran hóp sjúklinga og aðstandendur þeirra. Ekki verður komist hjá uppsögnum, lokunum deilda og annarri skerðingu á þjónustu sjúkrahússins?…“?

Eða er Ásmundur kannski á dapurlegan og ósmekklegan hátt að reyna að réttlæta svikin loforð með því draga úr trúverðugleika Landspítalans og starfsfólks hans? Draga úr trúverðugleika spítalans sem samkvæmt nýlegri skýrslu erlendra sérfræðinga er vel rekinn, og hefur náð merkilega vel að halda uppi gæðum þrátt fyrir viðvarandi fjársvelti. En starfsfólkið hefur líka keyrt sig svo hart áfram að nú er komið að þolmörkum þess. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins heldur kannski að það harða starfsumhverfi sem fólk býr þar við, með tilheyrandi hættum á kulnun í starfi og mistökum – og mistök á spítölum geta verið banvæn – sé bara uppspuni, leikrit, sett upp fyrir sjónvarpsmyndavélar. Ég held að þar eigi hann fáa skoðunarbræður. Ríflega 40 prósent þjóðarinnar, rúm 86 þúsund manns, skrifuðu undir ákall um að framlög til heilbrigðiskerfisins yrðu stóraukin strax. Það ákall varð óumdeilanlega að helsta kosningamálinu. Um það efast enginn. Nema kannski Ásmundur. Nema kannski formaður hans og fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson. Og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Og kannski starfandi forsætisráðherra, Sigurður Ingi, ásamt hans flokksmönnum.

Er erfitt að standa með þjóð sinni?

Guðlaugur Þór, varaformaður fjárlaganefndar, sagði nýverið að fjármagn væri ekki allt, og að þótt staða ríkissjóðs væri góð þá ylti framhaldið á því að „menn hagi sér skynsamlega í efnahagsmálum“.

Skynsemi í efnahagsmálum: fjármagn er ekki allt. Nokkuð athyglisverð staðhæfing í ljósi þess að stjórnvöld hafa svelt heilbrigðiskerfið árum saman – raunframlög til heilbrigðisþjónustu umtalsvert lægri á þessu ári en árið 2008; hefur landsmönnum þó fjölgað síðan, sem og öldruðum og ferðamönnum, sem þurfa auðvitað á þjónustunni að halda.

Skynsemi.

Hér er upprifjun á einni birtingarmynd hennar: alfyrsta verkefni sitjandi stjórnar var að lækka skatt á hátekjufólk og stórlækka veiðileyfagjöld, þrátt fyrir að hagnaður stærstu sjávarútvegsfyrirtækja væri í sögulegu hámarki; í dag hafa 30 stærstu kvótafyrirtækin hagnast um 230 milljarða frá hruni. Hagnaður af sameign þjóðar. Er þá skynsemi að snarlækka veiðileyfagjöldin og tryggja að svimandi gróðinn sneyði hjá samfélaginu en lendi í vasa fárra einstaklinga? Á meðan sveltur heilbrigðiskerfið. Og biðlistar lengjast. Á meðan morknar bygging Landspítalans. Á meðan kulnar fólk þar hratt í starfi vegna of mikils álags, og íslenskir læknar erlendis hika við að snúa heim, vilja ekki lenda í þræla­kistunni.

Það er erfitt að skilja hvers vegna.

Eða hvað?

Í áðurnefndri skýrslu erlendu sérfræðinganna um íslenska heilbrigðiskerfið segir meðal annars:

„Umfang starfsemi sérfræðilækna á einkastofum hefur aukist hratt á síðustu árum án skýrrar stefnu, stjórnunar, stýringar verkefna eða eftirlits með gæðum þjónustunnar.“

Afhverju læðist að manni sá óþægilegi grunur að þingmenn sitjandi starfsstjórnar hafi síðustu fjögur ár daufheyrst við ákalli heilbrigðiskerfisins um aukin framlög, vegna þess að þeir hafi lítinn áhuga á að bæta það? Þess vegna stinga þeir glóðvolgum kosningaloforðum í vasann og leggja fram svikna eiða – vegna þess að það er draumur Sjálfstæðismanna, Framsókn virðist dingla viljalaust með, að efla einkarekstur heilbrigðiskerfisins. Eins og þeir hafa leynt og ljóst gert síðustu árin. Þess vegna tala þeir um að peningar séu ekki allt, og það þurfi að sýna skynsemi; þeirra draumur er að herða áfram að Landspítalanum til að tryggja vöxt einkageirans. Það er þeirra pólitíska sýn. Sýn frjálshyggjunnar.

Það er hugsanlega eina ályktunin sem hægt er að draga af málinu.

En það er hátíð í bæ – flokkarnir tveir geta ekki keyrt frumvarpið hjálparlaust í gegn. Og bráðum sjáum við kjósendur, og þar með þau rúm 86 þúsund sem skrifuðu undir ákallið um stóraukin framlög til heilbrigðiskerfisins, hvaða manneskjur aðrir þingmenn hafa að geyma. Standa þeir með þjóð sinni? Standa þeir við eigin orð; eða eru þeir líka sýktir af þeim dularfulla sjúkdómi sem knýr þingmenn svo oft til að ganga á bak orða sinna?





Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu




Skoðun

Sjá meira


×