Erlent

Bardagar nærri Damaskus þrátt fyrir vopnahlé

atli ísleifsson skrifar
Borgarastríðið í Sýrlandi hefur nú staðið í tæp sex ár.
Borgarastríðið í Sýrlandi hefur nú staðið í tæp sex ár. Vísir/AFP
Vopnahléð í Sýrlandi sem tók gildi á miðnætti virðist að stærstum hluta hafa haldið. Þó hafa borist fréttir af bardögum nærri höfuðborginni Damaskus í dag.

Óljóst er hvor hafi átt fyrsta skotið, en samtökin Syrian Observatory for Human Rights segja að þyrlur stjórnarhers Bashar al-Assad Sýrlandsforseta hafi skotið á hverfið Wadi Barada, norðaustur af Damaskus, og Hama-héraði í dag. BBC greinir frá.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti greindi frá því í gær að stjórnvöld í Rússlandi, Tyrklandi og Sýrlandi hefðu náð samkomulagi um vopnahlé sem tæki gildi á miðnætti að sýrlenskum tíma.

Rússneski herinn hefur stutt sýrlenska stjórnarherinn, en Tyrkir hafa staðið með sýrlenskum uppreisnarhópum.

Fullyrt var að stjórnarherinn muni leggja niður vopn og að öllum loftárásum á sýrlenska uppreisnarmenn verði hætt. Vopnahléið næði þó ekki til hryðjuverkahópa á borð við ISIS og Jabhat Fateh al-Sham, sem áður nefndist Nusra-fylkingin og hefur verið í tengslum við Al Kaída.

Samkomulagið er gert í beinu framhaldi af brottrekstri uppreisnar­manna frá austurhluta Aleppo-borgar, sem var síðasta stóra borgin sem þeir höfðu á valdi sínu.

Borgarastríðið í Sýrlandi hefur nú staðið í tæp sex ár.


Tengdar fréttir

Samið um vopnahlé í Sýrlandi

Rússar, Tyrkir og Íranar ætla að hafa eftirlit með vopnahléi í Sýrlandi og tryggja frið til framtíðar. Pútín Rússlandsforseti skýrði frá þessu í gær. Vopnahléið nær þó ekki til öfgahreyfinga á borð við Daish.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×