Lífið

Appelsínugul Harpa á alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi

Stefán Árni Pálsson skrifar
Mynd/Hallur Karlsson
Ljósaganga UN Women fer fram kl. 17 í dag á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Dagurinn markar upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi hér á landi sem UN Women stendur stendur fyrir ásamt öðrum félagasamtökum.

Yfirskrift Ljósagöngunnar í ár er – Konur á flótta. Maryam Raísi leiðir gönguna í ár og flytur viðstöddum hugvekju. Maryam og móðir hennar, Torpikey Farrash, hafa verið á flótta undanfarin 15 ár.

Þegar Maryam var fjögurra ára gömul tóku talíbanar völdin í Afganistan og neyddust mæðgurnar til að flýja frá Kabúl. Allar götur síðan hafa þær verið á flótta og flakkað milli Írans og Afganistan. Þegar stríðsherra í Afganistan ætlaði að taka sér Maryam sem konu flúðu mæðgurnar til Evrópu og síðar til Svíþjóðar eftir langt og strangt ferðalag. Eftir þriggja ára dvöl þeirra í Svíþjóð var þeim neitað um hæli.

Þá héldu þær næst til Íslands þar sem þeim var neitað um hæli eftir þriggja mánaða dvöl. Í fjóra mánuði hafa þær beðið eftir símtali milli vonar og ótta. Þær ánægjulegu fréttir bárust í fyrri hluta síðustu viku að kærunefnd útlendingamála hefur vísað málinu aftur til Útlendingastofnunar sem þýðir að þeim verður ekki vísað úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og málið verður skoðað frá upphafi hér. Þátttaka Maryam í göngunni í ár er táknræn fyrir þá hörmulegu stöðu sem milljónir flóttakvenna um allan heim búa við. 

Gangan hefst klukkan 17 á Arnarhóli við styttu Ingólfs Arnarsonar. Þar mun appelsínugul Harpa blasa við en fleiri byggingar víða um heim verða tendraðar þessum lit í tilefni dagsins. Appelsínuguli liturinn er táknrænn fyrir von og bjarta framtíð kvenna og stúlkna án ofbeldis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×