Innlent

Rannsaka meint ofbeldi á leikskóla í Reykjavík

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Móðir barnsins taldi áverkana af mannavöldum og gerði yfirvöldum viðvart. Ekki er vitað hvers eðlis áverkarnir voru.
Móðir barnsins taldi áverkana af mannavöldum og gerði yfirvöldum viðvart. Ekki er vitað hvers eðlis áverkarnir voru. vísir/vilhelm
Barnavernd Kópavogs hefur til skoðunar mál sem tengist meintu ofbeldi starfsmanns leikskóla í Reykjavík á hendur ungu barni. Þetta staðfestir Sigríður Björg Tómasdóttir, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar, í samtali við Vísi.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur var vanhæf í málinu vegna tengsla við starfsmanns og var málinu því vísað til næsta sveitarfélags.

Barnið er sagt hafa komið heim með áverka fyrir nokkrum dögum. Móðir þess taldi áverkana af mannavöldum og gerði því barnaverndaryfirvöldum viðvart, en ekki hafa fengist upplýsingar um hvort málið sé komið á borð lögreglunnar. Þá liggur ekki fyrir hvers eðlis áverkarnir eru.

Helgi Grímsson, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, segir borgina nú vinna að því að safna gögnum um málið, að eigin frumkvæði. Umræddur leikskóli er hins vegar einkarekinn og hefur borgin því ekki aðhafst í málinu á þessum tímapunkti, að sögn Helga. Starfsmaðurinn sé ekki á vegum borgarinnar.

Leikskólastjórinn vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað og vildi ekki gefa upp hvort starfsmaðurinn sem grunaður er sé enn við störf. Staðfesti hann hins vegar að unnið sé eftir ákveðnum verkferlum þegar mál sem þessi koma upp, en vildi ekki gefa nánari upplýsingar um þá ferla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×