Erlent

29 særðir eftir sprengingu í New York

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögregla lokaði svæðinu í kring og rannsakar nú málið.
Lögregla lokaði svæðinu í kring og rannsakar nú málið. Vísir/Getty
Minnst 29 eru slasaðir eftir sprengingu í fjölmennu hverfi í New York. Orsakir sprengingarinnar eru ókunn en Bill de Blasio, borgarstjóri borgarinnar, segir að sprengingin hafi verið viljaverk. Ekkert bendi þó til þess að um hryðjuverk hafi verið að ræða

Einn liggur þungt haldinn á spítala en meiðsli annarra eru talin minna alvarleg. Sprengingin átti sér stað um klukkan 21.00 að staðartíma eða skömmu eftir miðnætti á íslenskum tíma.

Talið er að sprengingin hafi orðið í ruslagámi en greint hefur verið frá því að annar sprengibúnaður hafi fundist skammt frá þeim stað þar sem sprengingin varð. Sprengingin átti sér stað í Chelsea-hverfi í New York. Þar er blómstrandi veitingastaða- og barmenning og því yfirleitt fjölmennt í hverfinu um helgar.

Lögregla lokaði svæðinu í kring og rannsakar nú málið. Rannsóknin beinist einkum að manni sem á upptökum öryggismyndavéla sést vera við gáminn sem sprakk skömmu áður en sprengingin varð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×