Innlent

„Topp tíu ráð fyrir krabbameinssjúka“

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Kona sem var greind með krabbamein fyrr á árinu telur sjúklinga vanta leiðsögn eða trúnaðarmann sem leiði um kerfið. Á nokkrum mánuðum hefur hún þurft að leggja út tæplega 1,4 milljónir króna vegna sjúkdómsins.

Fjallað var um sögu Láru Guðrúnar Jóhönnudóttur í helgarblaði Fréttablaðsins en Lára var greind með brjóstakrabbamein í febrúar og fór í brjóstnám í mars. Hún missti móður sína úr sama meini sautján ára og þekkir kerfið vel. Lára telur vanta leiðarvísi um það.

„Það væri rosalega gott ef það væri einhver ein manneskja sem kæmi, sem þú getur treyst, og segði: „Þú ert með þetta fjölskyldumynstur, þennan sjúkdóm, þetta er langtímaplanið þitt og átt rétt á öllu þessu. Ég ætla að gera þetta fyrir þig"," segir Lára.

„Svona topp tíu ráð til að vera með krabbamein. Sem hljómar ekki alveg jafn vel þegar þú segir það og þegar þú hugsar það," segir Lára og hlær.

Frá því að Lára var greind hefur hún þurft að greiða tæplega 1,4 milljónir króna vegna meðferðarinnar. Stóran hluta fékk hún lánaðan hjá tengdaforeldrum en Lára segir lántökur vegna veikinda bíða margra krabbameinssjúklinga.  „Þú getur gert þetta allt saman á raðgreiðslum í rauninni. En þessir reikningar fara ekki neitt. Þú getur beðið með að borga en þeir fara ekkert og bíða bara í heimabankanum."

Hún segir grátbroslegt að hugsa til þess að krabbameinið hafi komið upp á ágætum tíma. „Það má segja að þetta hafi verið besta tímasetningin fjárhagslega til að greinast með krabbamein. Það er ógeðslega skítt. Að hugsa það. Ef þetta hefði gerst fyrir tveimur árum væri ég í rosalega slæmum málum," segir Lára.

Hún telur vanta að kerfið geri ráð fyrir að fólki batni að lokinni meðferð og geti komið undir sig fótum á ný.

„Að manni sé gefinn séns á því að eiga einföld lífsgæði framundan þegar manni batnar. Það kostar klink fyrir samfélagið en ég gef það margfalt til baka með því að vera fúnkerandi einstaklingur þegar ég kem til baka. Bæði andlega og líkamlega."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×