Erlent

38 manns látnir eftir árás ISIS á flóttamannabúðir í Sýrlandi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Ríki Íslams, bera ábyrgð á árásinni.
Hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Ríki Íslams, bera ábyrgð á árásinni. Vísir/AFP
Að minnsta kosti 38 manns, almennir borgarar, ásamt málaliðum á vegum Kúrda, eru látnir, eftir að hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Íslamskt ríki, réðust á flóttamannabúðir í norðausturhluta Sýrlands í dag. BBC greinir frá. 

Um er að ræða búðir sem hýstu sýrlenskt og írakskt flóttafólk, sem ekki hafði í önnur hús að venda. Samkvæmt tilkynningu frá hryðjuverkasamtökunum, þar sem þau lýsa yfir ábyrgð á árásinni, var um að ræða „eina af mörgum væntanlegum árásum á trúleysingja.“

Samkvæmt upplýsingum frá sýrlenskum mannréttindasamtökum, sprengdu að minnsta kosti fimm vígamenn sig í loft upp, jafnt innan sem og fyrir utan búðirnar, snemma í morgun. Talið er að tala látinna muni enn aukast, en auk þeirra sem eru látnir, eru 30 manns særðir.

Samtökin hafa farið hallandi fæti í landinu að undanförnu og gengur kúrdískum bardagahópum, ásamt öðrum uppreisnarmönnum, sem studdir eru af Bandaríkjamönnum, stöðugt betur í baráttunni við samtökin. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×