Lífið

Frumsýning á Vísi: Dimma með drungalegt myndband við lagið Villimey

Stefán Árni Pálsson skrifar
Þungarokkshljómsveitin DIMMA sendir frá sér plötuna Eldraunir í maí og mun sveitin af því tilefni blása til heljarmikilla útgáfutónleika í Háskólabíói laugardaginn 10. júní.

Tónleikar Dimmu eru ávallt mikið sjónarspil og sveitin leggur mikinn metnað í að útgáfutónleikar hverrar plötu slái alla aðra tónleika við.

Fyrsta lagið sem kemur í spilun af plötunni er lagið Villimey en Lífið frumsýnir myndbandið í dag í samstarfi við Ómar á X-inu 977. Myndbandið er í leikstjórnGuðjóns Hermannssonar.

Dimma mun koma fram víðsvegar um land á fjölmörgum eigin tónleikum og tónleikahátíðum á næstu mánuðum til að fylgja Eldraunum eftir eins og t.d. Eistnaflugi, Þjóðhátíð og víðar.

Síðasti hlutinn

Eldraunir er í raun síðasti hluti af þríleik sem tengist lauslega og hófst með útgáfu plötunnar Myrkraverkárið 2012 en þar var yrkisefnið öll þau mannanna verk sem framin eru í myrkrinu og skuggahliðum mannlífsins. Á Vélráð, sem kom út 2014, ræddi um þá klæki sem mannfólkið notar til þess að beygja náungann undir sinn vilja og ná yfirhöndinni og völdum í samskiptum sín á milli. Eldraunirer svo um erfiðleikana sem við mætum hvert og eitt í lífinu á meðan  við berjumst áfram til að vinna okkur brautargengi í köldum og hörðum heimi.

Tónlistarlega þá kveður við nýjan tón á plötunni en hún er þyngri, harðari og hraðari en fyrri plötur Dimmu. Hljóðheimurinn er einfaldari og  meira lifandi en áður enda var sveitin búin að eyða miklum tíma í demóupptökur áður en komið var í hljóðverið og menn vissu upp á hár hvað gera átti þegar þangað kom.

Á Eldraunum má því heyra mjög vel æfða rokkhljómsveit sem tekur upp við bestu aðstæður með helstu fagmenn landsins sér til aðstoðar, en platan er tekin upp í Sundlauginni í Álafosskvosinni undir stjórn Haraldar V. Sveinbjörnssonar upptökumeistara en Ívar Ragnarsson hljóðblandar og Hafþór Tempó Karlsson tónjafnar.  

Hér að ofan má sjá myndbandið við lagið Villimey.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×