Erlent

Árásin við Louvre: Árásarmaðurinn 29 ára Egypti

atli ísleifsson skrifar
Maðurinn lét til skarar skríða í stigagangi við innganginn að Louvre-safninu.
Maðurinn lét til skarar skríða í stigagangi við innganginn að Louvre-safninu. Vísir/afp
Árásarmaðurinn sem særði franskan hermann við Louvre-safnið í París í morgun er 29 ára Egypti. Franski ríkissaksóknarinn Francois Molins greindi frá þessu á fréttamannafundi nú undir kvöld.

Molins greindi frá því að maðurinn, sem var vopnaður tveimur sveðjum, hafi komið til Frakklands frá Dúbai þann 26. janúar síðastliðinn. Hann var með vegabréfsáritun sem heimilaði honum að ferðast til Frakklands sem ferðamaður og dvelja þar í mánuð.

Maðurinn keypti sveðjurnar tvær sem hann notaði fyrir 600 evrur í vopnaverslun við Bastillutorg síðasta laugardag. Í frétt BBC segir að talið sé að hann hafi dvalið í íbúð í áttunda hverfi borgarinnar, en enn á eftir að bera fullkomin kennsl á manninum.

Maðurinn lét til skarar skríða í stigagangi við innganginn að Louvre-safninu. Hópur hermanna var þar á ferli, en manninum tókst að særa einn hermann áður en hann var skotinn fimm skotum. Árásarmaðurinn var fluttur alvarlega særður á sjúkrahús.

Bernard Cazeneuve, forsætisráðherra Frakklands, segir að árásin hafi verið í ætt við hryðjuverk. Óvíst er hvað maðurinn ætlaði sér en hann var með tvo bakpoka með sér. Í hvorugum þeirra fundust sprengiefni.

Frönsk yfirvöld vinna nú að því að komast að því hvort maðurinn hafi verið einn að verki eða fylgt fyrirmælum frá öðrum aðila.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×