Erlent

Sveðjuárásin við Louvre-safnið: „Við sáum dauðann koma“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mikil öryggisgæsla er á vinsælum ferðamannastöðum í París.
Mikil öryggisgæsla er á vinsælum ferðamannastöðum í París. Vísir/EPA
Afgreiðslukona sem varð vitni að því þegar árásarmaðurinn lét til skarar skríða í Louvre-safninu í París í morgun segist hafa orðið skelfingu lostin. Árásarmaðurinn liggur þungt haldinn eftir að hermenn yfirbuguðu hann.

„Við sáum dauðann koma og miðað við allt sem er í gangi núna þá urðum við afar, afar hrædd,“ sagði afgreiðslukonan í samtali við fréttastofu AFP. Viðtalið má sjá hér að neðan.

Neyðarástand hefur verið í gildi í Frakklandi frá hryðjuverkunum í París í nóvember 2015. Mikil öryggisgæsla er á vinsælum ferðamannastöðum í París og eru hermenn til að mynda staðsettir við Louvre-safnið.

Maðurinn er sagður hafa verið vopnaður sveðju og látið til skarar skríða í stigagangi við innganginn að safninu. Hópur hermanna var þar á varðbergi og reyndu þeir að stöðva hann. Tókst manninum að særa einn hermanninn með sveðjunni.

Hermennirnir skutu því næst fimm skotum að manninum sem særðist alvarlega við það. Mynd sem birt hefur verið á samfélagsmiðlum er talin sýna lögreglu umkringja manninn.

Bernard Cazeneuve, forsætisráðherra Frakklands, segir að árásin hafi verið í ætt við hryðjuverk. Óvíst er hvað maðurinn ætlaði sér en hann var með tvö bakpoka með sér. Í hvorugum þeirra hafa fundist sprengiefni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×