Innlent

Óskylt að greiða fjallskil vegna viðhalds á girðingum og réttum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fjallskilagjöld Borgarbyggðar renna meðal annars til viðhalds á Þverárrétt.
Fjallskilagjöld Borgarbyggðar renna meðal annars til viðhalds á Þverárrétt. vísir/valli
Eigandi fjárlausrar jarðar þarf ekki að greiða fjallskilagjöld þar sem gjöldin runnu meðal annars til viðhalds á girðingum og réttum. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Vesturlands.

Sveitarfélagið Borgarbyggð höfðaði mál gegn eigendum Sólheimatungu í Stafholtstungum til greiðslu fjallskilagjalda. Jörðin átti upprekstrarrétt á afrétt á Bjarnardal allt til ársins 1998 en þá var réttinum sagt upp. Núverandi eigendur keyptu jörðina 2012 og skulduðu tæplega 144 þúsund krónur í fjallskil.

Jarðareigendur töldu sér ekki skylt að greiða gjaldið þar sem enginn fjárbúskapur væri á jörðinni. Þá bentu þeir á að með fjallskilum væri átt við smölun og leitir. Af því leiddi að álagning fjallskilagjalda heimilaði aðeins innheimtu gjalds sem stæði undir þeim kostnaði sem af því hlýst.

Í niðurstöðu dómsins segir að þrátt fyrir að Borgarbyggð hafi ekki sundurliðað í hvað fjallskilagjaldið nýttist þá lægi það ljóst fyrir að gjaldið hefði meðal annars verið nýtt til viðhalds á girðingum og réttum. Af þeim sökum þótti álagning fjallskilagjaldsins í fjallskilasamþykkt ekki eiga sér stoð í lögum um afréttarmálefni og fjallskil.

Ingi Tryggvason, lögmaður Borgarbyggðar í málinu, segir að dómnum verði ekki áfrýjað til Hæstaréttar þar sem hin umdeilda upphæð nái ekki lágmarksáfrýjunarfjárhæð. Ekki verði sótt um áfrýjunarleyfi. Málskostnaður, 900 þúsund krónur, fellur á sveitarfélagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×