Enski boltinn

Skallaprinsinn af White Hart Lane | Dele Alli afgreiddi topplið Chelsea | Sjáðu mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dele Alli fagnar í kvöld.
Dele Alli fagnar í kvöld. Vísir/EPA
Tottenham endaði þrettán leikja sigurgöngu Chelsea í kvöld þegar Tottenham vann 2-0 sigur á toppliðinu á White Hart Lane í síðasta leik tuttugustu umferðar ensku úrvalsdeildarinnar.

Hinn tvítugi Dele Alli skoraði bæði mörk Tottenham-liðsins í leiknum og hefur þar með skorað tvö mörk í þremur leikjum í röð í ensku úrvalsdeildinni.

Chelsea átti möguleika á því að ná átta stiga forskoti á toppnum en eftir þessi úrslit er Liverpool áfram fimm stigum á eftir Antonio Conte og lærisveinum hans.



Tottenham tók líka þriðja sætið af Manchester City með þessum sigri en Tottenham er nú sjö stigum á eftir Chelsea.

Eftir mikla baráttu og jafnan fyrri hálfleik skoraði Tottenham óvænt í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Chelsea-vörnin sofnaði á verðinum en það var lítið í gangi þegar Christian Eriksen sendi boltann fyrir og Dele Alli skallar hann laglega í markið framhjá Courtois í marki Chelsea.

Chelsea sýndi smá lífsmark í upphafi seinni hálfleiks og bæði Diego Costa og Eden Hazard voru nálægt því að skora á fyrstu fjórum mínútunum.

Tottenham slapp með skrekkinn og Dele Alli kom liðinu síðan í 2-0 á 54. mínútu með öðru skallamarki sínu. Christian Eriksen átti aftur fyrirgjöfin að þessu sinni gerði Dele Alli vel á fjærstönginni með því að skalla boltann yfir Thibaut Courtois í markinu.

Dele Alli er núna búinn að skora tvennu í þremur leikjum í röð. Hann skoraði tvö mörk í 4-1 sigri á Southampton, önnur tvö mörk í 4-1 sigri á Watford og svo mörkin tvö á móti Chelsea í kvöld.

Dele Alli hefur þar með skorað tíu deildarmörk á tímabilinu en frammistaða hans í kvöld verður efni í hverja risafyrirsögnina í ensku blöðunum á morgun.

Þetta var fyrsti tapleikur Chelsea síðan að liðið tapaði 3-0 á móti Arsenal 24. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×