Erlent

Vill aftökusveit í stað banvænnar sprautu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Dauðarefsingum í Bandaríkjunum er nú að mestu framfylgt með banvænum lyfjaskammti.
Dauðarefsingum í Bandaríkjunum er nú að mestu framfylgt með banvænum lyfjaskammti. Vísir/Getty
J.W. Ledford Jr., fangi í Georgíufylki í Bandaríkjunum, sækir nú um að vera tekinn af lífi með aftökusveit í stað banvænnar sprautu, hinnar viðteknu aðferðar. Ledford hlaut dauðarefsingu fyrir að myrða nágranna sinn árið 1992.

Í frétt BBC kemur fram að lögfræðingar Ledford segi hann hafa lengi tekið inn lyf við taugaverkjum, sem gætu breytt efnaskiptum í heila hans við sprautuskammtinn og valdið „sársauka sem brjóti í bága við stjórnarskrána.“ Ledford vill því að aftökusveit framfylgi dauðarefsingunni í staðinn.

Dómari vísaði lögsókninni frá í gær, föstudag, en lögfræðingar Ledford segjast munu áfrýja. Aftakan á að fara fram næstkomandi þriðjudag. Lögfræðingarnir segja fyrirhugaða aftöku Ledfords ekki í samræmi við stjórnarskrá Bandaríkjanna, sem leggur bann við „illri og óvenjulegri refsingu.“

Ekki er löglegt að framfylgja dauðarefsingum með aftökusveit í Georgíufylki. Þá hafa lögmenn Georgíufylkis dregið fullyrðingar Ledfords stórlega í efa og segja það grunsamlegt að athugasemdir hans berist svo stuttu fyrir aftökuna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×