Erlent

Heilbrigðisráðherranum sparkað

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Nicolas Maduro lét Antonietu Caporale taka pokann sinn.
Nicolas Maduro lét Antonietu Caporale taka pokann sinn. vísir/epa
Lyfjafræðingurinn Luis Lopez tók í gær við sem heilbrigðisráðherra Venesúela. Hann tekur við af kvensjúkdómalækninum Antonietu Caporale sem gegnt hafði embættinu í fjóra mánuði.

Caporale var ýtt úr stjórninni af forsetanum Nicolas Maduro eftir að tölfræði um ástand heilbrigðiskerfis landsins skaut upp kollinum. Slík tölfræði hefur ekki verið gefin út síðustu tvö ár.

Tölurnar, sem komu frá heilbrigðisráðuneytinu, sýna að ungbarnadauði í landinu hefur aukist um 30 prósent og sængurkvennadauði um 65 prósent frá því að slík tölfræði var síðast gefin út. Þá fjölgaði malaríu­tilfellum um 76 prósent á milli ára.

Kreppan í Venesúela hefur nú varað í rúm fjögur ár og verða áhrif hennar víðtækari með hverjum deginum sem líður. Verðbólga er í hæstu hæðum og skortur er á matvælum og helstu nauðsynjavörum. Þá stefnir allt í að lyfjaskortur verði í landinu en heilbrigðisstarfsmenn áætla að 85 prósent lyfja séu að verða uppurin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×