Erlent

Trump yfirgaf herbergið án þess að skrifa undir

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, skrifaði ekki undir forsetatilskipanir á sérstakri samkomu sem hann hafði sjálfur boðað til, síðastliðinn föstudag í þeim tilgangi. Hann mætti en yfirgaf síðan herbergið. Myndband af atvikinu hefur hlotið mikla athygli. CNN greinir frá.

Forsetinn hefur allt frá því að hann tók við völdum í janúar síðastliðnum ítrekað boðað til slíkra viðburða, þar sem hann hefur undirritað forsetatilskipanir sem ávallt hafa hlotið mikla athygli.

Á föstudaginn hélt forsetinn stutta ræðu um tilskipanirnar en þær eiga að auðvelda bandarískum stjórnvöldum að bregðast við lögbrotum fyrirtækja sem stunda viðskipti við útlönd.

Að lokinni ræðu sinni var forsetinn spurður út í fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa sinn Michael Flynn, sem sóst hefur eftir friðhelgi, gegn því að veita vitnisburð vegna tengsla ríkisstjórnar Trump við Rússa, en þær spurningar virti forsetinn að vettugi, áður en hann yfirgaf herbergið.

Fast á hæla hans kom Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna og hafði hann meðferðis möppurnar tvær með tilskipununum.

Hann undirritaði svo tilskipanirnar fyrir luktum dyrum, í öðru herbergi í Hvíta húsinu. Ekki er ljóst hvað nákvæmlega olli atvikinu en hægt er að sjá myndband af því hér fyrir neðan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×