Erlent

Mótmælendur kveiktu í þinghúsi vegna umdeildrar stjórnarskrárbreytingar

Anton Egilsson skrifar
Mikill eldur logaði i þinghúsinu.
Mikill eldur logaði i þinghúsinu. Vísir/AFP
Mótmælendur í Paragvæ kveiktu í þinghúsi landsins í gærkvöldi í kjölfar þess að öldungardeild þingsins samþykkti tillögu að umdeildri stjórnarskrárbreytingu. Breytingin hefur það í för með sér að sitjandi forseti, Horacio Cartes, og aðrir forverar hans geta gefið kost á sér að nýju í næstu forsetakosningum.

Greinir BBC frá því að hundruð mótmælanda hafi verið saman komnir fyrir utan þinghúsið til að mótmæla stjórnarskrárbreytingunni og fór allt gjörsamlega úr böndunum. Komust nokkrir mótmælendanna inn í þinghúsið þar sem þeir lögðu skrifstofur þeirra þingmanna sem samþykktu tillöguna í rúst og kveiktu í blöðum og húsgögnum.

Beitti lögregla meðal annars vatnsbyssu og skaut gúmmíkúlum að mótmælendum til að aftra för þeirra að þinghúsinu. Töluverður fjöldi fólks slasaðist en á meðal þeirra voru mótmælendur, lögreglumenn og stjórnmálamenn. Þá börðust slökkviliðsmenn við eldinn sem varaði í eina til tvær klukkustundir. 

Samkvæmt núverandi stjórnarskrá frá árinu 1992 er sú regla í gildi að forseti landsins getur einungis setið eitt kjörtímabil sem varir í fimm ár. Nái tillagan fram að ganga gæti því Cartes boðið sig fram til endurkjörs þegar kjörtímabili hans lýkur á næsta ári. Áður en núverandi stjórnarskráin tók gildi hafði Paragvæ verið undir einræðisstjórn í um 35 ára skeið.

Alls 25 af 45 öldungardeildarþingmönnum samþykktu tillöguna sem vakið hefur mikla reiði almennings í landinu. Mun tillagan næst vera lögð fyrir fulltrúardeild þingsins en þar hefur flokkur Cartes meirihluta svo líklegt þykir að hún verði samþykkt þar. Fari svo verður tillagan borin undir þjóðaratkvæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×