Erlent

Norðmenn fylgjast grannt með Brexit

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Frank Bakke-Jensen, Evrópumálaráðherra norsku stjórnarinnar.
Frank Bakke-Jensen, Evrópumálaráðherra norsku stjórnarinnar. Vísir/EPA
Norsk stjórnvöld ætla að fylgjast grannt með samningaviðræðum Breta við Evrópusambandið um útgöngu Bretlands. Útkoma samninganna getur haft mikil áhrif á Noreg, sem rétt eins og Ísland er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu.

„Við verðum að viðurkenna að við fáum ekki að sitja við samningaborðið, en það er mikilvægt að við séum engu að síður í nálægð við ferlið sem partur af innri markaðnum,“ sagði Frank Bakke-Jensen, Evrópumálaráðherra norsku stjórnarinnar, í viðtali við norska fréttavefinn E24.

Þar vísar hann til þess að Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB gagnvart Bretlandi, hefur látið hafa eftir sér að hagsmunir ESB-ríkjanna verði hafðir í forgangi. Hagsmunir EES-landanna verði hafðir í öðru sæti í viðræðunum.

Bakke-Jensen segir að norsk stjórnvöld hafi þess vegna sett saman vinnuhóp í utanríkisráðuneytinu til að fylgjast með viðræðunum og leggja mat á gang þeirra með tilliti til norskra hagsmuna.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×