Erlent

Ísrael verði ríki gyðinga

Kjartan Kjartansson skrifar
Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael.
Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael. Vísir/AFP
Ráðherranefnd í Ísrael hefur samþykkt drög að umdeildu lagafrumvarpi sem myndi lýsa landið ríki gyðinga. Palestínumenn hafa sagt fyrri tilraunir til að samþykkja lög þessa efnis vera hindrun á vegi friðar.

Sambærilegt frumvarp var fyrst lagt fram árið 2011. Ráðherranefndin hefur nú samþykkt endurskoðaða útgáfu af frumvarpinu. Höfundur þess er Avi Dichter úr Likud-flokki Benjamíns Netanyahu forsætisráðherra.

Í frumvarpinu er kveðið á um að Ísraelsríki sé „þjóðarheimili gyðinga“ og að sjálfsákvörðunarrétturinn í Ísrael nái aðeins til gyðinga, að því er kemur fram í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Palestínumenn segja að verði frumvarpið að lögum muni það skerða réttindi arabískra Ísraelsmanna sem eru um fimmtungur þjóðarinnar. Dichter segir frumvarpið aftur á móti nauðsynlegt til að treysta í sessi sjálfsmynd gyðinga, ekki síst í eigin huga.

Þrátt fyrir samþykki ráðherranefndarinnar þarf dómsmálaráðuneyti landsins enn að fara yfir það áður en þingið greiðir atkvæði um það nokkrum sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×