Erlent

Tvær ungar konur létust í Kaupmannahöfn: Krefjast þess að sjósleðar fái númeraplötur

Atli Ísleifsson skrifar
Slysið varð við Langebro við Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn.
Slysið varð við Langebro við Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn. Vísir/afp
Tvær ungar bandarískar konur eru nú látnar eftir að maður á sjósleða sigldi á bát þeirra við Langebro við Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn í gærkvöldi. Borgarfulltrúar krefjast þess nú að númeraplötur verði settar á alla sjósleða í borginni.

Slysið varð skömmu fyrir klukkan 20 í gærkvöldi og er ljóst að mennirnir sem fóru um á sjósleðum sínum í skipaskurðinum voru á miklum hraða. Einn þeirra virðist hafa misst stjórn á sjósleðanum með þeim afleiðingum að hann fór upp á bátinn sem bandarísku konurnar voru í, en þær höfðu leigt bátinn hjá fyrirtækinu Go Boat.

Önnur konan var úrskurðuð látin um klukkan átta í gærkvöldi en hin lést á sjúkrahúsi í nótt.

Mennirnir á sjósleðunum flúðu af vettvangi, en lögreglu tókst að hafa uppi á þeim nokkrum kílómetrum sunnar i Brøndby-höfn þar sem þeir voru að draga sleðana upp á land.

Kaupmannahafnarlögreglan segir frá því í tilkynningu að lögreglumenn hafi verið á staðnum þar sem slysið varð, en að ekki hafi verið hægt koma í veg fyrir að hópur glæpamanna (d. „en flok bøller“) hafi keyrt um eins og óðir væru. Bannað er að fara um á sjósleðum á þessu svæði.

Carl Christian Ebbesen, borgarfulltrúi Dansk Folkeparti, hefur nú krafist þess að númeraplötum verði komið á sjósleða og sambærilegum fararskjótum. Hann er æðstur manna þegar kemur að frísunda- og menningarmálum í borginni.

Alls voru níu manns handteknir í Brøndby og má einn þeirra búast við ákæru um að hafa orðið konunum að bana. Hinir eiga yfir höfðu sér ákæru um glæfraakstur, nema einum sem var sleppt.

Fyrirtækið Go Boat hefur frá árinu 2014 leigt út rafmagnsbáta til einstaklinga sem vilja sigla um skipaskurðina og hafnarsvæðið í Kaupmannahöfn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×