Erlent

Fjölskylda Kushner sökuð um siðferðisbrest

Kjartan Kjartansson skrifar
Jared Kushner er sagður í lykilstöðu í ríkisstjórn Trump.
Jared Kushner er sagður í lykilstöðu í ríkisstjórn Trump. Vísir/EPA
Systir Jareds Kushner, tengdasonar og eins nánasta ráðgjafa Donalds Trump Bandaríkjaforseta, vísaði til stöðu bróður síns þegar hún reyndi að fá kínverska athafnamenn til að fjárfesta í lúxusíbúðum fjölskyldunnar gegn því að fá vegabréfsáritun til Bandaríkjanna.

Fjárfestunum var sagt að legðu þeir að minnsta kosti hálfa milljón dollara í byggingu tveggja skýjakljúfa í New Jersey sem Kushner-fjölskyldan reisir gætu þeir fengið landvistarleyfi fyrir fjárfesta í Bandaríkjunum.

CNN segir að Nicole Kushner Meyer, systir Jared, hafi sérstaklega minnst á tengsl bróður síns við ríkisstjórn Trump þegar hún reyndi að sannfæra Kínverjana um að fjárfesta í verkefninu. Jared hefur sjálfur sagt sig frá fjölskyldufyrirtækinu, þar á meðal byggingarverkefninu í New Jersey.

Blaðamönnum bæði New York Times og Washington Post var vísað á dyr af fundinum sem fór fram á lúxushóteli í Beijing í gær. Ástæðan væri sú að þeir ógnuðu „stöðugleika“ fundarins. 

Í frétt Washington Post segir að fjárfestunum hafi verið ráðlagt að leggja fé í verkefnið fyrr en seinna ef svo færi að reglurnar breyttust undir stjórn Trump.

Blaðið segir ennfremur að Meyer hafi verið kynnt sem systir Jared í kynningarefni fyrir fundinn. Hann hefur verið helsti milliliður tengdaföður síns við stjórnvöld í Kína.

„Auðvitað munu þeir vilja fjárfesta“

„Þetta er ótrúlega heimskulegt og sérlega óviðeigandi. Þau gefa klárlega í skyn að Kushner-fjölskyldan muni tryggja þér vegabréfsáritun. Þeir munu ekki taka áhættuna. Auðvitað munu þeir vilja fjárfesta,“ segir Richard Painter, fyrrverandi sérfræðingur Hvíta hússins í siðareglum undir George W. Bush.

Trump og fjölskylda hans hefur þegar legið undir gagnrýni fyrir hagsmunaárekstra. Forsetinn hefur neitað að birta skattskýrslur sínar og þá lét hann syni sína taka við fyrirtækjarekstri sínum í stað þess að koma honum í óháðar hendur.

Dóttir hans Ivanka hefur sömuleiðis verið sökuð um að nota aðstöðu sína til að maka krókinn. Þannig var greint frá því að umsókn hennar um að skrá vörumerki í Kína hafi verið samþykkt sama dag og hún og faðir hennar snæddu með Xi Jinping, forseta Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×