Innlent

Fundað um netöryggi á öruggum stað

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Mikill viðbúnaður var við fund þjóðaröryggisráðs á öryggissvæði NATO og Landhelgisgæslunnar á varnarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll í dag. Netöryggismál voru fyrirferðamikil á fundinum auk þess sem rætt var um vopnaburð sérsveitarinnar um helgina.

Farið var yfir ýmis mál er tengjast almennt öryggisvörnum landsins. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra gerði grein fyrir vinnu við netöryggismál, utanríkisráðherra kynnti vinnu við gerð viðbúnaðar- og varnaráætlunar fyrir Ísland og Ríkislögreglustjóri kynnti vinnu varðandi hryðjuverkaógn í ljósi atburða í mörgum löndum á undanförnum misserum og árum.

Þá var einnig rætt um gæslu vopnaðrar sérsveitar við fjölmenna viðburði hér á landi. Líkt og fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá um helgina hefur lögregla á grundvelli nýs almannahættumats Ríkislögreglustjóra aukið viðbúnað sinn á fjöldasamkomum hér á landi. Um helgina sáu vopnaðir sérsveitarmenn um gæsluna í Litahlaupinu og á landsleik Íslands og Króatíu.



Fundur ráðsins hófst klukkan korter yfir tvö og átti hann að standa yfir í einn og hálfan tíma í mesta lagi. Fundurinn lengdist hins vegar umtalsvert og var í nærri fjórar klukkustundir.

Samkvæmt heimildum fréttastofu voru netöryggismál einna fyrirferðamest á fundinum.

Mikil öryggisgæsla var við fundinn sem fór fram á lokuðu öryggissvæði Landhelgisgæslunnar á varnarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll. Samkvæmt upplýsingum frá aðstoðarmanni forsætisráherra gerði viðkvæm dagskrá fundarins kröfu um staðsetninguna.

Í þjóðaröryggisráði sitja 11 fulltrúar. Forsætisráðherra er formaður ráðsins og stýrir fundum þess. Þá eiga þar sæti utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra og ráðuneytisstjórar ráðuneytanna þriggja. Ennfremur eiga fast sæti í ráðinu tveir þingmenn, annar úr þingflokki sem skipar meirihluta á þingi enhinn er úr þingflokki minnihluta. Þá sitja í ráðinu forstjóri Landhelgisgæslunnar, Ríkislögreglustjóriog fulltrúi Landsbjargar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×