Erlent

Leitarheimildarsvæði lögreglunnar í Kaupmannahöfn fellt úr gildi

Atli Ísleifsson skrifar
Alls hafa 42 skotárásir verið gerðar í Kaupmannahöfn síðan í júní.
Alls hafa 42 skotárásir verið gerðar í Kaupmannahöfn síðan í júní. Vísir/AFP
Lögregla í Kaupmannahöfn hefur fellt úr gildi sérstakt svæði í borginni þar sem lögreglumönnum hefur verið heimilt að framkvæma leit á fólki og í bílum án sérstakrar leitarheimildar.

Reglurnar um leitarheimildarsvæðið hafa verið í gildi frá 20. júlí síðastliðinn og hefur það náð yfir Nørrebro og Nordvest.

Samkvæmt reglunum var lögreglu heimilt að leita á fólki og í bílum. Leitarheimildarsvæðinu var komið á til að bregðast við ítrekuðum skotárásum í dönsku höfuðborginni.

Skotárásir glæpagengja voru á tímabili nær daglegt brauð í Kaupmannahöfn en um miðjan nóvember virðist sem að tvö stór glæpagengi hafi náð að semja um einhverja tegund af vopnahléi og hafa engar skotárásir verið gerðar síðan.

Í frétt DR  segir að alls hafi 42 skotárásir verið gerðar í Kaupmannahöfn síðan í júní. Í þeim hafa 25 manns særst og þrír verið drepnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×