Fótbolti

Rúnar Már spilaði allan leikinn í öðru tapi Grasshopper í röð

Elías Orri Njarðarson skrifar
Rúnar Már á ferðinni í leik með Grasshopper
Rúnar Már á ferðinni í leik með Grasshopper visir/epa
Rúnar Már Sigurjónsson spilaði allan leikinn í 0-4 tapi gegn Young Boys í úrvalsdeildinni í Sviss í dag.

Lið Grasshopper var í 10. sæti fyrir leikinn með 0 stig, eftir óvænt 2-0 tap gegn nýliðum FC Zurich í fyrstu umferðinni í deildinni.

Young Boys sátu á toppi deildarinnar fyrir leikinn eftir 2-0 sigur í fyrsta leik gegn Basel.

Það dró strax til tíðinda þegar að 15 mínútur voru liðnar af leiknum en þá kom Christian Fassnacht gestunum í Young Boys yfir í leiknum.

Heimamenn í Grasshopper voru meira með boltann í leiknum en náðu ekki að skapa sér mikið af færum.

Þegar blásið var til loka fyrri hálfleiks var staðan enn 0-1 fyrir gestina í Young Boys.

Eftir um 20 mínútna leik í síðari hálfleik varð Milan Vilotic, varnarmaður Grasshopper, fyrir því óhappi að skora sjálfsmark og Young Boys komnir með gott forskot.

Á 71. mínútu skoraði svo Jean Pierre Nsame þriðja mark Young Boys og útlitið orðið mjög slæmt fyrir Rúnar Má og félaga.

Það var varla ein mínúta liðin þar til að Christian Fassnacht skoraði annað mark sitt í leiknum og fjórða mark Young Boys.

Fleiri voru mörkin ekki og annað tap Grasshopper í röð staðreynd. Rúnar og félagar verma botnsætið í deildinni eftir tvo leiki í deildinni en Young Boys situr þæginlega á toppnum eftir góðan sigur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×