Enski boltinn

Skiptingin sem skilar alltaf sínu hjá Mourinho

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Marcus Rashford og Anthony Martial spila ekki mikið saman en þeir koma oft inn á hvor fyrir annan og eru báðir að spila mjög vel.
Marcus Rashford og Anthony Martial spila ekki mikið saman en þeir koma oft inn á hvor fyrir annan og eru báðir að spila mjög vel. vísir/Getty
Manchester United vann mikilvægan sigur á Tottenham í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar um helgina en sigurmarkið skoraði Anthony Martial þegar átta mínútur voru til leiksloka.

Martial átti enn eina frábæra innkomu af bekknum en hann er nú búinn að skora fjögur mörk eftir að koma inn á sem varamaður. Hann skiptir næstum alltaf við Marcus Rashford en þeir spila sjaldnast saman.

Sigurinn var afskaplega mikilvægur fyrir United í baráttunni við samborgara sína í City sem neita hreinlega að tapa leikjum en lærisveinar Pep Guardiola eru enn með fimm stiga forskot eftir sigur á West Bromwich Albion á útivelli.

Tottenham hefði með sigri getað náð þriggja stiga forskoti á Man­chester United en liðið var ansi bitlaust án Harry Kane og Fernando Llorente í framlínunni.

100 mínútur á milli marka

Anthony Martial kostaði fúlgur fjár þegar Manchester United keypti hann fyrir tveimur árum. Hann var orðaður við brottför frá félaginu í sumar en hefur þess í stað reynst einn besti leikmaður liðsins það sem af er tímabili.

Martial hefur byrjað sjö leiki fyrir United á leiktíðinni í öllum keppnum og komið sjö sinnum inn á. Hann er búinn að skora sex mörk og gefa fimm stoðsendingar og koma þannig að ellefu mörkum í fjórtán leikjum, þar af sjö sem varamaður.

Það líða aðeins 100 mínútur á milli marka hjá Frakkanum sem José Mourinho virðist ekki vilja hafa inni á á sama tíma og Marcus Rashford.

Enski framherjinn hefur einnig spilað stórvel en 128 líða á milli marka hjá honum. Hann er búinn að byrja tíu leiki og koma inn á sex sinnum, skora sjö mörk og leggja upp fimm. Hann er með örlítið betri tölfræði en Martial en töluvert fleiri mínútur spilaðar.

Af hverju ekki báðir?

Sparkspekingar í Englandi spyrja sig nú hvers vegna þeir spili svona lítið saman inn á vellinum og hvor eigi í raun og veru að fá að byrja fyrst Mourinho virðist harður á því að þeir skipti mínútunum á milli sín á vinstri kantinum eða í framlínunni þegar svo ber við.

Martial skarpar 1,36 færi í leik en Rashford 0,94 þannig að miðað við tölfræði á móti spiluðum mínútum er Martial að standa sig betur þótt ekki miklu muni.

Það gæti svo haft áhrif á Mourinho að sigurhlutfallið á tímabilinu með Rashford í byrjunarliðinu er 90 prósent á móti aðeins 71 prósenti þegar Frakkinn fær tækifæri sem byrjunarliðsmaður.

Mourinho virðist allavega vita hvernig hann fær það besta út úr báðum því það skiptir í raun ekki máli hvor þeirra byrjar og hvor kemur inn á fyrir hvorn því að þessi skipting skilar alltaf sínu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×