Erlent

„El Chapo“ vill fá að hitta eiginkonu sína

Samúel Karl Ólason skrifar
Joaquin "El Chapo“ Guzman áður en hann var framseldur til Bandaríkjanna.
Joaquin "El Chapo“ Guzman áður en hann var framseldur til Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Réttarhöldin yfir Joaquin „El Chapo“ Guzman munu fara fram í apríl á næsta ári. Hinn 59 ára gamli meinti fíkniefnabarónn frá Mexíkó er meðal annars sakaður um fjölda morða og mannrána. Hann var fluttur frá Mexíkó til Bandaríkjanna í janúar og hefur lýst yfir sakleysi sínu.

Guzman, sem hefur kvartað yfir aðstæðum sínum í fangelsinu, tókst tvisvar sinnum að strjúka úr fangelsi í Mexíkó, en honum er nú haldið í einangrun í New York. Lögmenn hans fóru fram á að dregið yrði úr öryggisgæslunni og hann færður úr einangrun. Þá vill Guzman fá að hitta eiginkonu sína og lögmenn hans vilja fá að ræða við hann án þess að gler aðskilji þá.

Dómarinn sem Guzman og lögmenn hans ræddu við í dag, fannst hins vegar við hæfi að farið væri að gát varðandi fangelsun manns sem hefði tvisvar sinnum strokið áður.

Árið 2015 tókst Guzman að flýja úr fangelsi í Mexíkó í gegnum göng sem höfðu verið grafin undir það. Göngin voru rúmlega eins og hálfs kílómetra löng og búið var að koma mótorhjóli þar fyrir svo Guzman gæti verið fljótur þar í gegn.

Hann var svo handsamaður hálfu ári seinna í mjög frægri handtöku, sem minnti helst á hasarmynd. Skömmu áður en hann var handtekinn hafði leikarinn Sean Penn ferðast til frumskóga Mexíkó til að taka viðtal við Guzman sem birtist í Rolling Stone.

Samkvæmt AP fréttaveitunni vilja yfirvöld takmarka samskipti hans við umheiminn eins og hægt og segja hann geta notast við dulin skilaboð, mútur og aðrar leiðir til að reka veldi sitt úr fangelsi og reyna að strjúka aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×