Erlent

Staðfestir dauðadóm yfir fjórum mönnum vegna hópnauðgunar og morðs

Atli Ísleifsson skrifar
Dómstóll dæmdi þá Akshay Thakur, Vinay Sharma, Pawan Gupta og Mukesh Singh til dauða árið 2013.
Dómstóll dæmdi þá Akshay Thakur, Vinay Sharma, Pawan Gupta og Mukesh Singh til dauða árið 2013. Vísir/AFP
Hæstiréttur Indlands hefur staðfest dauðadóm yfir fjórum mönnum sem dæmdir voru fyrir hópnauðgun og morð á 23 ára háskólanema í Delhi árið 2012.

Dómstóll dæmdi þá Akshay Thakur, Vinay Sharma, Pawan Gupta og Mukesh Singh til dauða árið 2013. Í dómi hæstaréttar kemur fram að mennirnir hafi framið „grimmilegan glæp“ sem hafði gríðarleg áhrif á sálarlíf indversku þjóðarinnar.

Málið vakti mikinn óhug á sínum tíma, ekki bara í Indlandi heldur víða um heim, og var þess krafist að lögum um nauðganir yrði breytt.

Mennirnir réðust á konuna um borð í strætisvagni þegar hún var á leið heim úr kvikmyndahúsi í desember 2012. Hún var þar á ferð með vini sínum sem hinir dæmdu réðust einnig á.

Konan, Jyoti Singh, lést af völdum sára sinna í Singapúr þrettán dögum eftir árásina.

Í frétt BBC segir að aðstandendur konunnar hafi fagnað þegar dómari las upp dóm sinn í morgun. Talið er að það gætu tekið nokkur ár þar til að dómnum verði framfylgt.

Alls voru sex manns handteknir vegna árásarinnar á sínum tíma. Einn þeirra, Ram Singh, fyrirfór sér í fangelsi árið 2013, og öðrum, sem var sautján þegar árásin var framin, var sleppt árið 2015 eftir að hafa afplánað þrjú ár á betrunarheimili. Þrjú ár er hámarksrefsing fyrir ólögráða einstaklinga í Indlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×