Erlent

Svarthöfði olli uppþoti og rýmingu skóla

Samúel Karl Ólason skrifar
Svarthöfði spókar sig í sólinni.
Svarthöfði spókar sig í sólinni. Vísir/Getty
Lögregla var kölluð til skóla í Bandaríkjunum í gær eftir að hrætt foreldri hringdi eftir að hafa séð lávarð myrku hliðarinnar ganga inn í skólann. Skólinn var rýmdur í snari eftir símtalið og nemendur færðir af svæðinu á meðan að lögregluþjónar könnuðu skólann ítarlega og gengu úr skugga um að engin hætta væri á ferðum.

Eins og margir eflaust vita getur Svarthöfði í kvikmyndunum, meðal annars, kyrkt fólk með hugaraflinu einu og því gætu einhverjir haldið að þarna hefði geta skapast gífurleg hætta. Ekki liggur fyrir hvort að Svarthöfði hafi verið vopnaður geislasverði sínu, en það verður að teljast líklegt.

Dagurinn í gær, hinn fjórði maí, er víða haldinn hátíðlegur sem Alþjóðlegi Star Wars dagurinn og klæðir fólk sig sem persónur úr kvikmyndunum um allan heim. Einn nemandi í Ashwaubenon í Wisconsin ákvað að fara klæddur sem Svarthöfði í skólann.

Foreldrið sem hringdi á lögregluna, þekkti búninginn ekki og taldi sig sjá grímuklæddan aðila í skotheldu vesti og ákvað því að kalla yfirvöld til.

Einhverjir fjölmiðlar ytra vilja meina að nemandinn hafi verið klæddur í Stormsveitarbúning (Stormtrooper) en yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar í Ashwaubenon segir að hann hafi verið klæddur sem Svarthöfði (Darth Vader).

Forsvarsmenn skólans segja ljóst að nemandinn hafi gert „mistök“ eða einfaldlega sýnt „dómgreindarleysi“. Lögreglan segir að foreldrið sem um ræðir hafi brugðist rétt við og nemandinn verður ekki ákærður eða refsað á nokkurn hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×