Erlent

Ítalskur hjúkrunarfræðingur þóttist bólusetja þúsundir barna

Atli Ísleifsson skrifar
Alvarlegar aukaverkanir bólusetninga séu mjög fátíðar en geta sést hjá um það bil einum af hverjum 500 þúsund til milljón bólusettum.
Alvarlegar aukaverkanir bólusetninga séu mjög fátíðar en geta sést hjá um það bil einum af hverjum 500 þúsund til milljón bólusettum. Vísir/Getty
Mislingafaraldur gengur nú yfir Ítalíu og hefur hneyksismál innan heilbrigðiskerfisins fengið þarlenda stjórnmálamenn til að deila harkalega um bólusetningar.

Nýlega var greint frá því að hjúkrunarfræðingur á heilsugæslu í norðurhluta Ítalíu sé grunaður um að hafa þóst bólusetja þúsundir barna. Samstarfsmönnum hjúkrunarfræðingsins tók að gruna að maðkur væri í mysunni þar sem ekkert barnanna grét þegar þau voru „bólusett“, auk þess að bóluefni fundust í ruslafötum heilsugæslunnar.

Prófanir voru gerðar á nokkur hundruð sjúklinga hjúkrunarfræðingsins í þessari viku sem staðfestu gruninn.

Þóttist bólusetja um 20 þúsund börn

Í frétt SVT kemur fram að talið sé að hjúkrunarfræðingurinn hafi þóst bólusetja um 20 þúsund börn yfir margra ára tímabil, gegn stífkrampa, lömunarveiki, mislingum og fleiru. Sjúklingarnir munu nú þurfa að mæta aftur á heilsugæslur til að verða bólusett.

Hjúkrunarfræðingurinn neitar sök og segir að ástæða þess að börnin virðast óbólusett sé að bóluefnin hafi verið geymd við rangt hitastig.

Francesco Benazzi, yfirmaður heilsugæslunnar, hefur beðið börnin og foreldrana afsökunar og telur að rannsókn muni leiða til þess að hjúkrunarfræðingurinn verði látinn taka poka sinn. Hann segir að hjúkrunarfræðingurinn hafi ekki útskýrt gjörðir sínar með fullnægjandi hætti en telur að ástæðuna megi rekja til vantrú hans á bólusetningum.

88 prósent smitaðra óbólusett

Fréttir um brot hjúkrunarfræðingsins hafa komið upp á sama tíma og mislingafaraldur gengur yfir landið. Tilkynnt hefur verið um rúmlega 1.900 tilfelli á fyrstu fjórum mánuðum ársins. 88 prósent hinna smituðu eru óbólusett samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti landsins.

Bólusetningar eru mikið til umræðu í ítölskum stjórnmálum og hafa fjöldi mála komið til kasta dómstóla þar sem foreldrar einhverfra barna hafa kennt bólusetningum um ástand barna sinna.

Stjórnarflokkurinn PD vill gera bólusetningar að skyldu og kennir leiðtoga stjórnarandstöðuflokksins 5 Stelle, Beppe Grillo, um að hafa talað gegn mikilvægi bólusetninga. Grillo, sem áður starfaði sem grínisti, sagðist í uppistöndum sínum efast um mikilvægi bólusetninga og í stefnuskrá flokks hans er sérstaklega fjallað um aukaverkanir bólusetninga.

Grillo hafnar því að flokkur hans reyni að lýsa bólusetningum sem slæmum, en segir að foreldrar eigi sjálfir að fá að ráða hvort börn sín verði bólusett.

Á vef Landlæknis kemur fram að alvarlegar aukaverkanir bólusetninga séu mjög fátíðar en geta sést hjá um það bil einum af hverjum 500.000 til 1.000.000 bólusettum. Hugsanlegur skaði af bólusetningu er því margfalt minni en sá skaði sem hlýst af sjúkdómnum sem bólusetningin kemur í veg fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×