Erlent

Fulltrúadeildin samþykkti að afnema Obamacare en óljóst með öldungadeildina

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. vísir/EPA
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær að afnema heilbrigðislöggjöf Baracks Obama, fyrrverandi forseta. Löggjöfin var kölluð Obamacare, hét raunar Affordable Care Act. Í hennar í stað var samþykkt ný löggjöf, The American Healthcare Act, eða bandaríska heilbrigðislöggjöfin.

Kusu alls 217 með afnáminu og nýju löggjöfinni en 213 á móti. Atkvæði féllu að mestu eftir flokkslínum en þó kusu rúmlega tuttugu Repúblikanar á móti.

Nú mun öldungadeild þingsins taka málið fyrir. Þar hafa allnokkrir Repúblikanar lýst efasemdum sínum um ágæti nýju löggjafarinnar. Ljóst er að fáir Repúblikanar mega kjósa gegn frumvarpinu ef það á að ganga í gegn en alls eru 52 af 100 öldungadeildarþingmönnum Repúblikanar.

Atkvæðagreiðsla gærdagsins er talin mikill sigur fyrir Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Paul Ryan, forseta fulltrúadeildarinnar. Báðir eru þeir kjörnir sem Repúblikanar. „Mörg okkar hafa beðið í sjö ár eftir að greiða atkvæði um þetta,“ sagði Ryan í gær.

Sagði Ryan í ræðu sinni í aðdraganda atkvæðagreiðslu að Obama­care væri að hrynja í sundur. Löggjöfin væri misheppnuð tilraun. Vísaði hann til þess að í Iowa-ríki sé einungis eitt ríkisfyrirtæki sem bjóði upp á sjúkratryggingar. Samkeppnin sé því lítil en nýju löggjöfinni sé ætlað að bæta úr því.

Nancy Pelosi, leiðtogi Demókrata í fulltrúadeildinni, var á öðru máli. „Þetta hörmulega frumvarp hefur mætt fordæmingu nærri allra,“ sagði Pelosi á blaðamannafundi. Þá sagði hún nýja útgáfu þess verri en þá sem frestað var í mars. Sagði hún, sem og aðrir Demókratar, að nýja löggjöfin muni gera það að verkum að færri Bandaríkjamenn geti nálgast heilbrigðisþjónustu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×