Innlent

Íslendingar reiðubúnir að miðla reynslu sinni af ábyrgri fiskveiðistjórnun

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, stjórnaði málstofu á ráðstefnunni
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, stjórnaði málstofu á ráðstefnunni Atvinnuvega-og nýsköpunarráðuneytið
Málefni hafsins eru rædd um þessar mundir á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Farið er yfir þau heimsmarkmið sem samtökin settu sér í málefnum hafsins árið 2015. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, stjórnaði málstofu á ráðstefnunni og Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra, hélt erindi fyrir hönd Íslands. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Í tilkynningunni er vitnað til mikilvægi hafsins fyrir íslenskt samfélag. Lífríki hafsins þurfi að vernda og samstarf sé mikilvægt til að ná árangri. Það þurfi alheimsátak til að koma í veg fyrir frekari plastmengun ásamt því að sinna skyldum Parísarsamkomulagsins. Fulltrúar sjávarútvegsskóla Háskóla SÞ, sem rekinn er á Íslandi, sóttu einnig ráðstefnuna og buðu íslendingar fram aðstoð sína í að miðla reynslu sinni af ábyrgri fiskveiðistjórnun, sem talin er vera mikilvægur hluti verndun lífríkisins.

Unnið hefur verið að undirbúningi ráðstefnunnar og hafa þrjú ráðuneyti staðið að undirbúningnum. Utanríkisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið skipuðu sendinefnd Íslands undir forystu Þorgerðar Katrínar.

Á ráðstefnunni er fjallað um mengun hafsins, stjórn og verndun strandsvæða, súrnmun sjávar, sjálfbærar fiskveiðar, stöðu smáeyríkja, vísindi og tæknilausnir, miðlun þekkingar og framkvæmd Hafréttarsáttmála SÞ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×