Innlent

Óútreiknanlegt vatn þreytir Álftnesinga

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Gunnar Freyr Steinsson með garðslönguna, sem stundum er alveg jafn kraftlaus og sturtan á heimili hans á Álftanesi.
Gunnar Freyr Steinsson með garðslönguna, sem stundum er alveg jafn kraftlaus og sturtan á heimili hans á Álftanesi. Vísir/Anton Brink
Íbúar Álftaness eru langþreyttir á lágum kaldavatnsþrýstingi á svæðinu. Vandamálið hefur komið upp reglulega undanfarin ár. Málið er komið í ferli.

Í Facebook-hópnum Íbúar Álftaness skýtur málið reglulega upp kollinum. Má þar meðal annars finna innlegg frá því í júní í fyrra þar sem rætt er um málið og öðru hvoru síðan þá. Hjá sumum renni kalda vatnið nánast ekki, hjá öðrum kólnar það varla og aðrir heyra einhver óhljóð í rörunum. Enn aðrir tala um að ekki sé hægt að fara í sturtu nema á ákveðnum tímum sólarhringsins.

„Þetta birtist með mjög mismunandi hætti,“ segir Huginn Freyr Þorsteinsson, íbúi á Álftanesi. „Maður hélt fyrst að þetta væri bundið við mann sjálfan og manns eigið hús en síðan heyrði maður fleiri tala um þetta. Vandamálið virðist oft vera meira um helgar þegar notkun er mikil,“ segir Huginn.

Það virðist ekki vera svo að íbúar nessins séu Indriðar upp til hópa sem heyri endalaust bank í ofnunum. Gunnar Freyr Steinsson hefur verið í sambandi við Veitur vegna málsins.

„Við fluttum hingað í lok ágúst og tókum strax eftir því að sturtan var leiðinleg. Vatnið var ýmist alltof kalt eða alltof heitt, svo heitt að það lá við bruna, til skiptis,“ segir Gunnar. Þar sem blöndunartækin í húsi hans voru fjörgömul brá hann á það ráð að skipta þeim út í von um að vesenið yrði fyrir bí. „Þetta skánaði við nýju tækin en við finnum fyrir þessu reglulega. Sérstaklega þegar það er heitt í veðri.“

Gunnar og kona hans voru í sambandi við Veitur en fyrirtækið sendi mann til þeirra fyrir nokkrum vikum og skoðaði hann húsið. Gunnar benti honum einnig á umræðuna í hópnum og fékk þá þær upplýsingar að svona ætti þetta ekki að vera.

„Veitur hafa fundið fyrir sveiflum í þrýstingi og telja að það megi rekja til leka í kerfinu. Það er unnið að greiningu og lekaleit,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Veitum. Hún bætir því við að sú vinna geti þýtt í náinni framtíð tímabundið kaldavatnsleysi á ákveðnum stöðum. Það yrði auglýst sérstaklega þegar þar að kemur.

„Það er búið að setja upp bráðabirgðasírita á svæðinu til að fylgjast með. Við biðjum íbúa líka um að láta vita ef það er eitthvað að sem má ekki rekja til skorts á ofankomu,“ segir Ólöf.

Mynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×