Fótbolti

Freddy Adu kominn til pólsks liðs en þjálfarinn vill ekki sjá hann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Freddy Adu hefur farið víða á ferlinum.
Freddy Adu hefur farið víða á ferlinum. vísir/getty
Freddy Adu, sem var talinn einn efnilegasti fótboltamaður heims á sínum tíma, er kominn til pólska úrvalsdeildarliðsins Sandecja Nowy Sacz á reynslu. Þjálfari liðsins hefur hins vegar engan áhuga á honum.

Adu, sem er 28 ára, hefur farið víða á ferlinum og jafnan stoppað stutt við hjá þeim félögum sem hann hefur verið á mála hjá.

Nú er Adu kominn til Sandecja Nowy Sacz sem er nýliði í pólsku úrvalsdeildinni. Þjálfari liðsins, Radoslaw Mrockowski, hafði hins vegar ekkert um það að segja.

„Ég heyrði bara að einhver hefði náð í hann á flugvöllinn. Þetta var ekki mín hugmynd. Ég samþykki þetta ekki. Þetta var ekki rætt við mig,“ sagði Mrockowski,

„Þetta er fáránlegt. Í staðinn fyrir að byggja upp lið á skynsaman hátt leitum við að gömlum ryksugum,“ bætti þjálfarinn við og vísaði þar til þess þegar Adu auglýsti ryksugur á samfélagsmiðlum í fyrra.

Sandecja Nowy Sacz er fjórtánda félag Adus á ferlinum sem hefur aldrei náð neinu flugi þrátt fyrir að miklar væntingar hafi verið gerðar til hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×