Erlent

Í haldi sértrúarsöfnuðar í London í þrjátíu ár: „Það var ekki annað í boði fyrir okkur en að hlýða honum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Aravindan Balakrishnan stofnaði sértrúarsöfnuð í London árið 1974.
Aravindan Balakrishnan stofnaði sértrúarsöfnuð í London árið 1974. vísir/epa
Það er 25. október 2013. Klukkan er 11:15 og dyrnar að félagsíbúð í Brixton í suðurhluta London opnast. Tvær konur stíga út. Önnur þeirra, Rosie, er fárveik en dauðhrædd við að leita til læknis.

Hún hefur alist upp í sértrúarsöfnuði í íbúðinni í Brixton, inni í miðri London, og samkvæmt reglum söfnuðarins hefur hún ekki mátt fara til læknis, hún hefur ekki mátt fara út ein sín liðs en henni var sagt að ef hún myndi reyna að flýja myndi hún á augabragði fuðra upp.

Rosie, sem í dag kallar sig Katy, náði að flýja þennan októberdag 2013 ásamt annarri konu úr sértrúarsöfnuðinum, Josie, sem var 57 ára gömul. Skammt frá húsinu biðu þeirra fulltrúar frá samtökum sem aðstoða fólk sem hefur verið misnotað og haldið sem þrælum en ásamt lögreglunni hjálpuðu þeir til við að skipuleggja flóttann.

Katy segir frá lífsreynslu sinni í ítarlegu viðtali við BBC.
Sagðist stjórna alheimsvél

Þegar farið var að rannsaka málið kom í ljós að Rosie og Josie voru ekki einu konurnar sem haldið var föngnum í húsinu heldur var þar einnig hin 69 ára gamla Aisha. Málið vakti gríðarlega athygli á sínum tíma en fyrir helgi var ítarlega fjallað um það á vef BBC og rætt við Katy (áður Rosie) um lífsreynsluna af því að alast upp og vera haldið fanginni allt sitt líf.

Maðurinn sem hélt konunum föngnum heitir Aravindan Balakrishnan en var kallaður Comrade Bala eða AB. Katy lýsir því í viðtalinu við BBC hvernig hann náði algjörri stjórn yfir fylgjendum sínum.

„Hann sagðist vera guð, hann stjórnaði heiminum, hann væri ódauðlegur og leiðtogi okkar og kennari. Það var ekki annað í boði fyrir okkur en að hlýða honum,“ segir Katy.

Þá fullyrti Balakrishnan að hann stjórnaði einhvers konar alheimsvél sem hann kallaði Jackie. Nafnið var skammstöfun fyrir Jehóva, Allah, Krist, Krishna og Immortal Easwaran, andlegan leiðtoga frá Indlandi.

Húsið sem Katy slapp úr árið 2013.vísir/epa
Kommúnískur boðskapur leiðarstefið

Daglegt líf í söfnuðinum var erfitt en grunnurinn í trúnni sem Balakrishnan boðaði var kommúnískur og byggði á kenningum og boðskap Marx, Lenín og Maó. Konurnar sem Balakrishnan hélt föngnum áttu að vakna snemma á hverjum morgni, búa til mat og þjóna honum. Þær voru í raun þrælar en kepptust engu að síður um að þjóna honum enda hafði honum tekist að heilaþvo þær.

Sumar kvennanna unnu úti en þær sem gerðu það ekki máttu ekki fara út fyrir hússins dyr. Þær þurftu að hlusta á margra klukkutíma langa fyrirlestra Balakrishnan um trúna og hann sjálfan en hann hafði búið til goðsögn úr sjálfum sér. Hann trúði að hann væri ódauðlegur og sagði fylgjendum sínum að ef þeir hlýddu honum í einu og öllu yrðu þeir ódauðlegir líka.

Katy fæddist árið 1983. Móðir hennar, Sian Davies, hafði gengið til liðs við söfnuðinn af fúsum og frjálsum vilja en hún hóf ástarsamband við Balakrishnan í byrjun 9. áratugarins. Katy er því dóttir hans en konurnar í söfnuðinum fengu ekki vita hver pabbinn væri og var talið trú um að alheimsvélin Jackie væri faðirinn. Katy vissi heldur ekki hver var mamma hennar fyrr en hún komst á fullorðinsár.

Reyndi fyrst að flýja árið 2005

Það var á þessum tíma sem Balakrishnan ákvað að söfnuðurinn þyrfti að fara í felur með starfsemi sína en hann vildi hrinda af stað kommúnískri byltingu og umturna því sem hann kallaði „breska fasistaríkið.“ Árið 1980 voru aðeins sjö konur á meðal fylgjenda Balakrishnan en hann hafði stofnað söfnuðinn sex árum fyrr.

Balakrishnan beitti konurnar ógnarstjórnun. Hann lamdi þær, kúgaði og misnotaði kynferðislega. Sian Davies, móðir Katy, lést árið 2004 eftir að hún reyndi að fyrirfara sér. Hún hafði stokkið út um glugga á íbúðinni þar sem söfnuðurinn hélt til en ekki dáið. Sian var flutt á sjúkrahús þar sem hún var í dái í sjö mánuði áður en hún lést.

Áður en Katy tókst að flýja árið 2013 hafði hún reynt að flýja árið 2005. Hún vissi hins vegar að hún ætti að bera sig að til að fá hjálp þar sem hún hafði aldrei áður farið ein út og haft samskipti við fólk. Hún fór til lögreglunnar sem sannfærði hana um að hringja í Balakrishnan. Hann kom, sótti Katy og sagði að allt væri í lagi. Hún var því fangi hans í átta ár til viðbótar.

Réttað var yfir Balakrishnan árið 2015. Hann var ákærður fyrir að kynferðislegt ofbeldi og að hafa haldið sinni eigin dóttur sem fanga. Við rannsókn málsins kom í ljós að Balakrishnan hafði nauðgað tveimur konum og var hann meðal annars dæmdur í fyrir það. Þá var hann jafnframt dæmdur fyrir grimmd í garð dóttur sinnar og fyrir að hafa haldið henni fanginni. Balakrishnan var dæmdur í 23 ára fangelsi fyrir brot sín í fyrra.

Ítarlega umfjöllun BBC um málið má sjá í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Stærsta þrælahaldsmál síðari ára

Lögreglan í London segir að mál kvennanna þriggja sem frelsaðar voru úr prísund sinni á dögunum eftir um þrjá áratugi sé stærsta nútíma þrælahaldsmálið í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×