Erlent

Hugveita sendir áróður gegn loftslagsvísindum til vísindakennara

Kjartan Kjartansson skrifar
Frjálshyggjuhugveitan Heartland Institute hefur sent 25.000 vísindakennurum í Bandaríkjunum bók þar sem viðurkenndum loftslagsvísindum er hafnað. Ætlun hennar er að senda vísindakennurum í öllum opinberum skólum í Bandaríkjunum bókina.

Bókin nefnist „Af hverju vísindamenn greinir á um hnattræna hlýnun“ og er skrifuð af þekktum afneiturum loftslagsvísinda.

Með bókinni fylgir mynddiskur og bréf frá Heartland Institute. Í því biður hugveitan kennarana um að „íhuga möguleikann“ að samhljómur ríki ekki á meðal vísindamanna um orsakir loftslagsbreytinga á jörðinni. Leggur hugveitan til að kennararnir kenni nemendum sínum að líflegar rökræður eigi sér nú stað á milli vísindamanna um málefnið.

„Þetta eru ekki vísindi en það er sett í vísindabúning. Þessu er greinilega ætlað að rugla kennara í ríminu,“ segir Ann Reid, framkvæmdastjóri samtakanna National Center for Science Education við PBS í Bandaríkjunum.

Þannig virðist forsíðu bókarinnar ætlað að blekkja kennarana. Undirtitill hennar er til að mynda „Skýrsla NIPCC um samhljóða álit vísindanna“.

Skammstöfun loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna sem gefur út raunverulegar samantektarskýrslur um niðurstöður loftslagsvísindamanna er IPCC. NIPCC sem er getið á forsíðu bókar Heartland Institute stendur aðeins fyrir „Not the IPCC“.

Heartland Institute ætlar í heildina að senda 200.000 vísindakennurum í Bandaríkjunum bókina. Þá verður hún komin i alla opinbera skóla landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×