Innlent

Sýningu á Mamma Mia aflýst í kvöld vegna bilunarinnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mikil mildi þykir að ekki fór verr þegar slanga sprakk í flugkerfi á sýningunni Mamma Mia í gærkvöldi.
Mikil mildi þykir að ekki fór verr þegar slanga sprakk í flugkerfi á sýningunni Mamma Mia í gærkvöldi. mynd/borgarleikhúsið
Sýning Borgarleikhússins á söngleiknum Mamma Mia, sem fara átti fram í kvöld 10. júní, fellur niður vegna bilunar í flugkerfi á stóra sviði leikhússins. Hundruðir lítra af olíu láku niður á sviðið eftir að slanga í flugkerfinu fór í sundur. Engin slys urðu á fólki en stöðva þurfti sýningu á söngleiknum í gærkvöldi vegna bilunarinnar og ekki var hægt að halda henni áfram.

Starfsfólk í miðasölu Borgarleikhússins mun hafa samband við þá sem eiga miða á sýninguna í kvöld en nú er unnið að því að þrífa bæði svið og búnað. Ekki er ljóst hvenær sýningar geta hafist að nýju.

Leikhúsið biður fólk að sýna biðlund og biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem óhappið kann að hafa valdið. Þá verða nánari upplýsingar um næstu sýningu birtar um leið og þær liggja fyrir.

Þá er fólk beðið að athuga að bilunin hefur ekki áhrif á sýninguna Elly sem sýnd verður á nýja sviði Borgarleikhússins í kvöld eins og áætlað var.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×