Innlent

Stöðva þurfti sýningu á Mamma Mia eftir alvarlega bilun í flugkerfi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mikil mildi þykir að ekki fór verr þegar slanga sprakk í flugkerfi á sýningunni Mamma Mia í gærkvöldi.
Mikil mildi þykir að ekki fór verr þegar slanga sprakk í flugkerfi á sýningunni Mamma Mia í gærkvöldi. mynd/borgarleikhúsið
Alvarleg bilun varð í flugkerfi á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu í gærkvöld er sýning stóð yfir á söngleiknum Mamma Mia. Stöðva þurfti sýningu vegna bilunarinnar en engin slys urðu á fólki. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Borgarleikhúsinu.

Í tilkynningunni segir einnig að í hléi á sýningunni hafi slanga sprungið í flugkerfinu yfir sviðinu. 300 lítrar af glussa, eða frostlegi, sprautuðust yfir stóran hluta sviðsins. Engin slys urðu á fólki en nær enginn var á sviðinu þegar bilunin varð og mikil mildi þykir að ekki fór verr.

Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, ávarpaði gesti og tilkynnti þeim að ekki væri hægt að halda sýningunni áfram vegna þessarar bilunar. Þá mun leikhúsið reyna eftir fremsta megni að bæta gestum skaðann.

„Borgarleikhúsið vill koma þeim skilaboðum á framfæri að reynt verði eftir fremsta megni að bæta leikhúsgestum skaðann og við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta óhapp kann að hafa valdið. Jafnframt vilja forsvarsmenn hússins koma þeim skilaboðum á framfæri að upplýst verði um næstu skref um leið og nánari upplýsingar liggja fyrir sem verður að öllum líkindum seinnipartinn í dag, laugardag.“

Teymi frá Reykjavíkurborg, sem sérhæfir sig í þrifum eftir slys sem þetta, vinnur nú hörðum höndum að því að þrífa sviðið og eftir að þeirri vinnu lýkur verður hægt að meta tjónið og ákveða næstu skref. Nánari upplýsingar munu liggja fyrir eftir að hreinsun lýkur.

Hér má sjá tilkynningu Borgarleikhússins í heild sinni:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×