Enski boltinn

Tottenham tapar ekki ef Dele Alli skorar: Sjö staðreyndir um skallaprinsinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dele Alli skoraði tvö í gær.
Dele Alli skoraði tvö í gær. vísir/getty
Dele Alli, tvítugur miðjumaður Tottenham og landsliðsmaður Englands, á fyrirsagnir ensku blaðanna þennan morguninn eftir að tvö skallamörk hans bundu enda á þrettán leikja sigurgöngu Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Strákurinn ungi skallaði boltann í netið í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir sendingu frá Dananum Christian Eriksen en félagarnir endurtóku svo leikinn í síðari hálfleik.

Fjórtán leikja sigurganga Arsenal frá febrúar til ágúst 2002 er enn þá sú lengsta í sögu deildarinnar en Chelsea tókst ekki að jafna hana. Chelsea á eftir á móti metið yfir lengstu sigurgöngu á einu tímabili eftir þessa þrettán sigra í röð.

Tölfræðiþjónustur og blaðamenn voru á yfirsnúningi í gærkvöldi að dæla út allskonar tölum og staðreyndum um þessi mörk Dele Alli, hvað þau gera fyrir Tottenham og hversu sögulega góður hann er. Hér eru sjö staðreyndir um Dele Alli sem er á sinni annarri leiktíð í ensku úrvalsdeildinni.

Hvorugt liðið var búið að eiga skot á mark þegar Dele Alli skallaði boltann í netið í fyrri hálfleik.

Dele Alli er búinn skora sex mörk í síðustu fjórum leikjum í ensku úrvalsdeildinni eða jafnmörg og hann skoraði í 26 leikjum á undan því.

Tottenham hefur aldrei tapað leik í ensku úrvalsdeildinni sem Alli hefur skorað í (15 leikir, 11 sigrar, 4 jafntefli)

Alli skoraði tíu mörk í 33 leikjum á síðustu leiktíð en er nú búinn að skora tíu mörk í 19 leikjum.

Alli er fimmti yngsti Englendingurinn til að skora 20 mörk. Hann var 20 ára og 268 daga gamall í gær. Michael Owen á enn þá metið.

Einu miðjumennirnir sem voru fljótari en Alli (52 leikir) að skora 20 mörk í sögu ensku úrvalsdeildarinnar eru Rafael van der Vaart (44) og Matthew Le Tissier (50).

Dele Alli er fyrsti miðjumaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar sem skorar tvö mörk í þremur leikjum í röð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×