Innlent

Hjólastóll notaður sem pensill

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Sýning með listaverkum fatlaðra ungmenna hefur staðið yfir í Hinu húsinu. Unnið var að verkunum með ýmsum hætti, svo sem með hjólastól í stað pensils.

Fötluðum ungmennum á aldrinum sextán til tuttugu ára bauðst að taka þátt í sköpunarviku í Hinu húsinu þar sem markmiðið var að tjá sig í gegnum málverk. Afraksturinn hefur verið til sýnis í Gallerí Tugt frá 2. ágúst.

Innan verkanna eru einstaklingsverk og samstarfsverk en unnið var að þeim með ýmsum nálgunum. Til dæmis var hjólastóll notaður í stað pensils og þeir sem eiga við meiri hreyfihömlun að stríða notuðu hendurnar sem verkfæri. Þá leituðu aðrir annarra leiða við tjáninguna og gerðu myndbandsverk.

Leiðbeinandi segir hugmyndina hafa verið hvetja ungmennin áfram í sinni sköpun. „En einnig fyrir okkur hin að fá smá innsýn inn í þeirra sköpunarheim sem er rosa mikill. Og miðað við hvað þetta var stuttur tími finnst mér hafa komið mikið út úr þessu," segir Tómas Freyr Þorgeirsson, listamaður.

Hann segir ungmennin hafa verið óhrædd við að tjá sig og unnið samkvæmt eigin sannfæringu. „Það er mjög mikil sköpunargleði og þau eiga til mikið taumleysi þegar að því kemur hvernig nálgun þau hafa á lífið og við sköpun listaverka. Þannig það getur verið gaman og mikið líf í að vera með þeim í því," segir Tómas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×