Innlent

Í skýjunum með fimmtán mínútna túrinn milli lands og Eyja

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Akranes á siglingu milli Akraness og Reykjavíkur. Niðurstöðu er að vænta í dag um hvort báturinn geti létt undir með Eyjamönnum. Bæjarstjórinn og þingmaður úr Eyjum eru ósáttir við Samgöngustofu.
Akranes á siglingu milli Akraness og Reykjavíkur. Niðurstöðu er að vænta í dag um hvort báturinn geti létt undir með Eyjamönnum. Bæjarstjórinn og þingmaður úr Eyjum eru ósáttir við Samgöngustofu. vísir/anton brink
Fólksflutningar með ferjunni Akraness til og frá Vestmannaeyjum um liðna verslunarmannahelgi tókust alveg stórkostlega. Þetta segir Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða sem rekur ferjuna. Leyfi til að sigla til Eyja á föstudegi og frá Eyjum á mánudegi fékkst á miðvikudag í síðustu viku eftir að Vestmannaeyjabær kærði úrskurð Samgöngustofu sem hafnað hafði beiðni um leyfi til siglinga.

Gunnlaugur sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að hann hefði vonast til þess að fyrst leyfi fékkst fyrir siglingar á föstudegi og mánudegi að talið yrði í lagi að sigla líka laugardag og sunnudag.

Góð nýting var á ferðunum sex til Eyja á föstudag og fullt í allar ellefu ferðirnar í Landeyjahöfn í gær, mánudag. Hann segir frábæra stemningu hafa verið um borð en Akranes er fimmtán mínútur á milli lands og Heimaeyjar. Herjólfur er 35 mínútur sömu leið.

Hann segir mikil tækifæri í Akranesinu.

Gunnlaugur Grettisson segir niðurstöðu Samgöngustofu um að synja um leyfi líklega klaufaskap og vill ekki dvelja við málið.vísir/óskar p. friðriksson
Ekki til íslenskt regluverk

„Þetta skip sem við fórum og völdum í Noregi, sigldum því yfir hafið frá Stavangri með viðkomu í Vestmannaeyjum, er alveg frábært,“ segir Gunnlaugur.

Samgöngustofa synjaði upphaflega beiðni Sæferða um leyfi til siglinga í tengslum við Þjóðhátíð. Athygli vakti að Samgöngustofu hafði ekki íslenskar reglur til að miða við þar sem regluverk er ekki til fyrir jafnhraðskreiðar ferjur og Akranesið. Samgöngustofa byggði því ákvörðun sína á evrópskum reglum.

„Það var veitt heimild fyrir skipið Akranes til að sigla í tilraunaskyni á afmarkaðri siglingaleið milli Reykjavíkur og Akraness í takmarkaðan tíma. Þar þurfti ákveðinn rökstuðning til vegna þess að skipið uppfyllir ekki Evrópureglur sem hafa verið innleiddar í gegnum EES-samninginn,“ sagði Þórhildur Elín Einarsdóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, við Vísi í síðustu viku.

„Engu að síður taldi Samgöngustofa, með þessum ákveðnu forsendum, réttlætanlegt að veita þessa tilteknu heimild. Þar með er skipið ekki orðið hæft til að sigla hvar sem er, þó að það hafi verið talið hæft til að sigla þessa tilteknu siglingaleið. Þannig var það til dæmis ekki metið hæft til að sigla milli lands og Eyja,“ sagði Þórhildur.

Samgönguráðuneytið felldi ákvörðun Samgöngustofu úr gildi á miðvikudaginn en meðal annars var bent á að hafsvæðið milli Reykjavíkur og Akraness væri skilgreint á sama hátt og svæðið milli lands og Eyja.

Þeir voru kampakátir úti í Eyjum á föstudaginn félagarnir Jón ráðherra og Ásmundur Friðiksson þingmaður. Milli þeirra er Halla Ragnarsdóttir, eiginkona Jóns.visir/óskar pétur
Sjá mikil tækifæri

Gunnlaugur segir að Jón Gunnarsson samgönguráðherra, sem skellti sér til Eyja með einni af ferðum Akraness á föstudaginn, hafi tjáð sér að regluverk fyrir ferjur eins og Akranesið væri í smíðum.

„Við sjáum gríðarleg tækifæri í þessu,“ segir Gunnlaugur. Sæferðir, dótturfélag Eimskipa, gera út ferjur á Breiðafirði, Akranesi auk Herjólfs sem siglir til Eyja.

„Það þarf að vera hægt að gera þetta víðar,“ segir Gunnlaugur og segir Norðmenn góða fyrirmynd í þeim efnum. Menn hafi sofið á verðinum á Íslandi gagnvart þessari tegund fólksflutninga.

Ölduhæð og sandsöfnun hafa valdið töluverðu raski á siglingum í og úr Landeyjahöfn undanfarna vetur.

Nýja Vestmannaeyjaferjan sem stefnt er á að afhenda næsta sumar.Vegagerðin
Ný ferja mun breyta miklu

„Við höfum upplifað það í gegnum veturna að stundum eru aðstæður rosalega flottar í janúar og febrúar en þá er dýpið of lítið fyrir Herjólf,“ segir Gunnlaugur.

Ný Vestmannaeyjaferja, sem til stendur að afhenda næsta sumar, á að hjálpa mikið til. Herjólfur ristir 4,3 metra og siglingarnar miðast við 2,5 metra ölduhæð að hámarki. Nýja ferjan ristir hins vegar aðeins 1,5 metra og getur athafnað sig á 3,5 metrum.

„Nýja ferjan mun ekki sigla 365 daga á ári en hún mun gera miklu betur en Herjólfur,“ segir Gunnlaugur.

Viðtalið í heild má heyra hér að neðan en þar kemur meðal annars fram að áttatíu þúsund manns fari á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja.


Tengdar fréttir

Niðurstaða Samgöngustofu óboðleg

„Mér finnst niðurstaða Samgöngustofu í þessu máli og rökstuðningurinn með henni vera full af innbyrðis mótsögnum, vera ómálefnaleg og óskiljanleg í samhengi hlutanna,“ segir Páll Magnússon.

Akranes fær að sigla á Þjóðhátíð

Samgönguráðuneytið telur Samgöngustofu ekki hafa sýnt fram á að aðstæður til siglinga milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar séu aðrar en á milli Reykjavíkur og Akraness.

Segir útsýnissiglingar Akraness ólíkar stífum Þjóðhátíðarsiglingum

Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, segir að leyfi til tímabundinna siglinga milli Reykjavíkur og Akraness hafi verið veitt á grundvelli ákveðins rökstuðnings. Þá sé hins vegar ekki þar með sagt að skipið sé hæft til að sigla aðrar leiðir, til að mynda milli lands og Eyja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×