Fótbolti

Nýjasta tískan hjá fótboltamönnum er að kaupa bandarísk fótboltafélög

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Drogba er bæði leikmaður og eignandi síns félags.
Didier Drogba er bæði leikmaður og eignandi síns félags. Vísir/Getty
Margir frægir fótboltamenn hafa komið til Bandaríkjanna við lok ferilsins til að ná sér í einn til tvo góða samninga áður en skórnir fara upp á hillu.

MLS-liðin hafa aukið sýnileika sinn með því að semja við stór nöfn og smá saman hefur vægi og virðing bandarísku deildarinnar aukist í alþjóðalega fótboltaumhverfinu.

Nú koma leikmenn hinsvegar ekki aðeins til Bandaríkjanna til að næla sér í góðan samning hjá MLS-liðum því nýjasta tískan hjá þeim er að koma og kaupa sér fótboltafélög.

 

Fótboltamennirnir hafa vissulega ekki efni á því að kaupa sér félag í MLS-deildinni enda stofnkostnaðurinn þar gríðarlega hár og tímafrekt ferli eins og sjá má á tilraun David Beckham í Miami. Þeir fara hinsvegar aðra leið eða með því að kaupa bandarísk neðri deilda lið.

Lið sem spila í North American Soccer League og í United Soccer League eru nú nokkur með fræga fótboltamenn í eigandahópi sínum.

Didier Drogba er þannig spilandi eigandi hjá liði Phoenix Rising FC, Paolo Maldini var einn af stofnendum Miami FC árið 2015 og þeir Demba Ba, Eden Hazard, Yohan Cabaye og Moussa Sow stofnuðu nýverið saman fótboltafélag í San Diego sem mun byrja að spila árið 2018.

Það er ekki aðeins ljúft fyrir þessa kappa að búa í Phoenix, Miami og San Diego eftir að fótboltaferlinum lýkur heldur sjá þessi félög gróðavon í því að selja leikmenn upp í MLS-deildina.

Á þessum þremur stöðum er hefð fyrir uppkomu sterkra leikmanna og þar eru því mikil tækifæri að búa til framtíðarstjörnur.

Það er líka draumur margra fótboltamanna að eiga sitt félög eftir að hafa spilað fyrir margskonar og mislynda eigendur allan sinn feril.  

Svo eru það draumóramenn eins og Didier Drogba en hann ætlar sér að koma Phoenix Rising FC liðinu upp í MLS-deildina en um leið og vinsældir fótboltans aukast í Bandaríkjunum þykir mjög líklegt að MLS-deildin taki inn fleiri lið á næstu árum.

Guardian fjallaði ítarlegra um þessa þróun og má lesa þá umfjöllun hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×