Innlent

Íbúar Ásbúðar hundleiðir á hundsgelti í götunni

Sveinn Arnarsson skrifar
Segja má að Ásbúð sé farin í hundana að mati íbúa.
Segja má að Ásbúð sé farin í hundana að mati íbúa. vísir/Sigurjón Ólason
Íbúar við götuna Ásbúð í Garðabæ eru orðnir hundleiðir á gelti fjölda hunda í götunni. Í tveimur húsum, að mati íbúa, eru rekin annars vegar einhvers konar hundahótel eða dagvistun fyrir hunda og í öðru húsi fer hundaræktun fram. Íbúar krefjast þess að strangari reglur séu settar um hundahald í götunni.

Fjórtán íbúar hafa ritað bréf til bæjarstjórnar Garðabæjar þar sem þeir óska tafarlausra úrbóta í málinu. „Við þetta ástand getum við ekki unað, einhverjar hömlur eða strangar reglur þarf að setja viðkomandi hundaeigendum. Því eru það tilmæli okkar hér við yfirvöld bæjarfélagsins að koma þeim skilaboðum til hundaeigenda að reglum um hundahald í þéttbýli og friðhelgi íbúanna sé virt,“ stendur í bréfi íbúanna.

Einn íbúi í götunni telur að í einu húsi séu tólf hundar að staðaldri. Héraðsdýralæknir Matvælastofnunar, Konráð Konráðsson, hafði ekki vitneskju um starfsemi í götunni. Slík starfsemi er tilkynningarskyld til stofnunarinnar. Ætlaði hann að kanna málið og ræða við hlutaðeigandi aðila.

Bréf íbúanna var tekið fyrir á fundi bæjarráðs þann 30. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×