Innlent

Hótaði starfsmönnum lífláti

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur þurft að sinna 35 verkefnum frá klukkan 7 í morgun.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur þurft að sinna 35 verkefnum frá klukkan 7 í morgun. vísir/eyþór
Skömmu fyrir klukkan 14 í dag var aðili handtekinn í vesturbæ Reykjavíkur eftir að hafa haft í líflátshótunum við starfsmenn í verslun. Hinn handtekni reyndist vera undir áhrifum áfengis, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu.

Mikill erill hefur verið á lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um helgina en lögreglan hefur þurft að sinna 35 verkefnum frá klukkan 7 í morgun.

Rétt fyrir klukkan 15 í dag var tilkynnt um þjófnað í verslun í Kópavogi en þjófurinn hafði stolið vörum úr versluninni. Skömmu fyrir hádegi var tilkynnt um innbrot í geymslu í austurborginni og er málið nú í rannsókn hjá lögreglu.

Þá var ökumaður stöðvaður fyrir ölvunarakstur í Hafnarfirði í morgun. Sá keyrði einnig réttindalaus en var látinn laus að lokinni sýnatöku. Annar ökumaður var stöðvaður klukkan 11 í Hlíðahverfi í Reykjavík vegna gruns um ölvunar- og fíkniefnaakstur. Hann hafði einnig verið sviptur ökuréttindum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×